Verkbann Samtaka atvinnulífsins gegn félagsmönnum Eflingar er löglegt. Dómur var kveðinn upp í máli Alþýðusambands Íslands gegn SA kl. 15.
Nú stendur yfir atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu setts ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og SA. Þrátt fyrir það hélt ASÍ stefnu sinni til streitu en atkvæðagreiðslu lýkur á miðvikudag.
ASÍ taldi að ákvörðun um verkbann væri ógild, meðal annars sökum þess að stjórn SA hafi verið óheimilt að taka ákvörðun um verkbann og vegna þess að ójafnt atkvæðavægi félagsmanna SA í kosningunni um verkbannið eigi sér ekki lagastoð.
Einnig taldi ASÍ að verkbannsboðun sé talin ólögleg vegna þess að allir félagsmenn SA voru á kjörskrá burtséð frá því hvort þeir starfi á félagssvæði Eflingar eða ekki. Þá tilgreindi ASÍ einnig formgalla á verkbannsboðuninni sem gerðu hana ólöglega.