Gert er ráð fyrir því í áætlunum að Landsvirkjun greiði til ríkisins 50 milljarða króna í skatt og arðgreiðslur. Er það um helmingur af því sem nýr Landspítali kostar og 5% af heildartekjum ríkisins. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Rafnars Lárussonar framkvæmdastjóra fjármálasviðs hjá Landsvirkjun á ársfundi fyrirtækisins í dag.
Af þessum 50 milljörðum eru 20 milljarðar króna í arðgreiðslur og 30 milljónir króna í skattgreiðslur. Þær helgast af hagnaði síðasta árs auk skatts af hagnaði við sölu á Landsneti.
Rafnar fór yfir sviðið hjá Landsvirkjun en fyrirtækið skilaði methagnaði á síðasta rekstrarári, 44,9 milljörðum króna. Þá fór eigið fé fyrirtækisins úr tæpum 35% árið 2010 í um 56% árið 2023.
Eins sagði hann frá því að lánshæfismat Landsvirkjun hefði flust úr flokki áhættufjárfestinga árið 2010 yfir í að vera sambærileg við það sem önnur orkufyrirtæki á Norðurlöndunum búa við eða svokallað BBB+ mat. Einungis norsk orkufyrirtæki eru í hærri flokki, þ.e. í A flokki.