„Ég bara spyr, hvað er í gangi?“

Kolbrún Baldursdóttir.
Kolbrún Baldursdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tillaga um að safnkostur Borgarskjalasafns verði einn og óskiptur á Þjóðskjalasafni og þar verði ráðist í stafræna umbreytingu til að bæta aðgengi og þjónustu er studd mjög gildum rökum. Gagnrýni á samráðleysi í aðdraganda þess að borgarráð samþykkti tillöguna er fráleit.

Þetta sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í umræðum í borgarstjórn um framtíðarhögun á starfsemi Borgarskjalasafns. Tillagan, sem byggir á þriðju sviðsmynd í skýrslu KPMG, kostar 1,5 milljarða króna á næstu sjö árum, en til stendur að leggja safnið niður. 

Dagur kvaðst skilja að það gæti verið viðkvæmt að gera breytingar. Borgin þyrfti að vanda sig í hverju skrefi en ekki væri hægt að horfa framhjá því að mikillar fjárfestingar sé þörf, bæði hvað varðar stafræn mál og húsnæðismál.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, sagði að það stæði ekki steinn yfir steini í máli borgarstjóra og það stangist mjög á við það sem borgarskjalavörður hefði m.a. haldið fram í útvarpsviðtali í morgun. Kolbrún sagði ekkert samræmi í því sem borgarstjóri talaði um og það sem fólk sem hefði starfað á safninu talaði um. „Þetta er í rauninni ótrúlegt. Ég bara spyr, hvað er í gangi?“ sagði Kolbrún.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur kvaðst taka undir það að ýmislegt sem kom fram í frásögn borgarskjalavarðar í viðtalinu hefði vakið verðskuldaða athygli og furðu. Borgarskjalavörður hefði tekið þátt í vinnslu skýrslu KPMG. Það stæðist enga skoðun að ekkert samráð hefði verið haft við Borgarskjalasafn eða borgarskjalavörð við vinnslu málsins. Dagur sagðist hafa kallað eftir gögnum í tengslum við þetta og að hann væri jafnundrandi og Kolbrún vegna ummæla borgarskjalavarðar.

Kolbrún sagði Dag vera að rægja og tala illkvitnislega um borgarskjalavörð en Dagur vísaði því á bug og sagðist aldrei hafa talað illa um hann eða nokkurn annan starfsmann. Borgarskjalavörður hefði einfaldlega verið sjálfur í starfshópi vegna málsins og hefði því átt að vera kunnugt um allt sem fram fór í undirbúningnum. Fullyrðingar borgarskjalavarðar í fjölmiðlum stæðust einfaldlega ekki skoðun.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, tók undir með Degi og sagði fráleitt að felldur hefði verið gildisdómur yfir borgarskjalaverði. Hann sagði borgarskjalavörð hafa verið með í ráðum og haft fullt tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri.

Líf Magneudóttir.
Líf Magneudóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, sagði langt síðan hún hefði séð jafnléleg vinnubrögð borgarmeirihlutans í jafnstóru máli, eða síðan 2010 þegar farið var í að sameina leik- og grunnskóla í Reykjavíkurborg. Hún sagði málið líta þannig út að allt ætti að gerast með einu pennastriki og ýtt hefði átt málinu í gegn án nokkurrar umræðu. Samtal við hlutaðeigandi hefði ekki verið tæmandi. Vandaðri vinnubrögð hefðu verið að leggja skýrsluna fyrst fram og fá síðan viðbrögð samfélagsins og pólitíska umræðu.

„Hér er flotið sofandi að feigðarósi,“ sagði Líf og bætti síðar við: „Ég held að við séum að spara aurinn og kasta krónunni ef þetta verður samþykkt í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert