Embætti héraðssaksóknara hefur skilað umsögn um frumvarp til hækkunar á kynferðislegum lágmarksaldri úr fimmtán árum upp í átján ár. Í umsögninni segir embættið „ekki ráðlegt að gera svo stórar breytingar á aldursviðmiðinu á þessari stundu og án nánari skoðunar.“
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, lagði frumvarpið fram á síðasta ári. Þar leggur hann til að kynferðislegur lágmarksaldur sé hækkaður úr fimmtán árum í átján ár. Í frumvarpinu eru færð rök fyrir því að börn skuli hljóta frekari vernd en núgildandi lög veita.
Meðal annars er lagt til að kynferðisaldurinn verði hækkaður og að ákvæði varðandi sifjaspell eða náin tengsl geranda og barns flokkist nú sem refsiþyngingarástæða. Þá muni haldast óbreytt að „kynferðismök milli einstaklinga á svipuðum aldri og þroskastigi séu ekki refsiverð.“ Einnig þykir ekki nauðsynlegt að halda atkvæði um gáleysi í lögunum þar sem „börn eiga ávallt að fá að njóta vafans.“
Frumvarpið í heild sinni má sjá hér.
Í umsögn sinni segir héraðssaksóknari að embættið geti ekki tekið undir brottfellingu á efni 200. gr. sem varði sifjaspell. Greinin sé óháð aldri og athæfið sé refsivert þó að brotaþoli sé eldri en átján ára.
Hvað varði brottfall ákvæðis um gáleysi á þeim grundvelli að „börn eigi ávallt að fá að njóta vafans“ sé um misskilning að ræða.
„Enda breytingin látin haldast í hendur við það að lagt sé til að 200. gr og 201.gr. falli niður. Ákvæði 204. gr. fjallar um þá stöðu þegar brot gegn 201. gr. eða 202. gr. er framið í gáleysi um aldur þess sem verður fyrir broti. Þetta ákvæði er mjög mikilvægt og nauðsynlegt enda er meginreglan sú að brot gegn almennum hegningarlögum eru eingöngu refsiverð séu þau framin af ásetningi, sbr. 18. gr. laganna. Fyrir gáleysisbrot er eingöngu hægt að refsa ef sérstök heimild er til þess í lögunum. Ákæruvaldið ber sönnunarbyrðina þegar kemur að því að sanna að gerandi hafi haft ásetning til brots og þarf í málum sem varða brot gegn bömum að sanna að viðkomandi hafí vitað að brotaþoli var undir aldri á verknaðarstundu. Sú sönnun er stundum torveld og þá er mjög mikilvægt að hafa gáleysisákvæði í lögunum að því er varðar aldurinn,“ segir í umsögninni.
Að lokum gagnrýnir embættið hækkun kynferðislegs lágmarksaldurs úr fimmtán árum í átján ár á þeim grundvelli að að þessu sinni liggi ekki fyrir rannsóknir málinu til rökstuðnings. Vísað er til þess þegar aldurinn var hækkaður úr fjórtán í fimmtán ára árið 2007. Þegar sú breyting hafi verið gerð hafi verið vísað til rannsókna sem og viðhorfa ungmennanna sjálfra.
„Í frumvarpinu nú er ekki vísað til neinna rannsókna hvað þetta varðar og svo stór breyting sem þessi þarf að eiga sér stað að undangenginni ítarlegri skoðun. Vissulega eru ungmenni börn í skilningi laga til 18 ára aldurs en ungmenni á aldrinum 15-17 ára hafa samt sem áður sjálfsákvörðunarrétt um ýmislegt og því er það mat embættisins að ekki sé ráðlegt að gera svo stórar breytingar á aldursviðmiðinu á þessari stundu og án nánari skoðunar.“
Umsögn embættis héraðssaksóknara í heild sinni má sjá hér.