Hart tekist á um rétt kvenna eftir bakslag

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp á 67. fundi Kvennanefndar Sameinuðu …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp á 67. fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í gær. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Vegna þess að við höfum átt svo öfluga kvennahreyfingu meðal annars, og náð miklum árangri á sviði jafnréttismála – þó að okkur finnist aldrei nóg að gert og að það séu alltaf verkefni fyrir höndum og svo sannarlega erum við ekki búin að ná fullu jafnrétti – en vegna þess að við höfum náð ýmsum merkum áföngum, þá finnum við að það er mikið hlustað á okkar rödd í þessum málaflokki,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is. 

Katrín er nú stödd á 67. fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW67) í New York í Bandaríkjunum. Yfirskrift fundar Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í ár er Nýsköpun og tæknibreytingar og menntun kvenna á stafrænni öld – Í þágu jafnréttis og valdeflingar kvenna.

Fundurinn hófst í gær og flutti Katrín þá ávarp þar sem hún flutti yfirlýsingu Íslands í þessum málum. 

Líta til Íslands 

Í lok fundarins, eftir tvær vikur, kemur út yfirlýsing og segir Katrín að búast megi við harðri samningalotu þar sem að harkalega verður tekist á um málaflokkinn. 

„Það eru mjög ólík sjónarmið þegar kemur að kynbundnu ofbeldi, rétti til þungunarrofs kvenna og rétti kvenna yfirhöfuð til að ráða yfir eigin líkama. Það er því tekist á um grundvallargildi á þessum fundi.“

Spurð hvort aðrir fundargestir líti upp til Íslendinga segist Katrín ekki geta sagt svo endilega. 

„En þeir líta til okkar,“ segir hún og nefnir fund með norrænum ráðherrum í gær sem var þéttsetinn. 

Katrín tók einnig þátt í viðburði norrænna jafnréttisráðherra um aðgerðir …
Katrín tók einnig þátt í viðburði norrænna jafnréttisráðherra um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi á netinu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Þar var stafrænt kynferðisofbeldi meðal annars til umræðu og það sem Norðurlöndin hafa gert í þeim málum. 

„Alveg feykilega áhugaverð umræða því að kannski má segja að ofbeldið sem við þekkjum úr raunheimum er líka til staðar í netheimum,“ segir Katrín og nefnir íslenskar kannanir sem sýna að mjög hátt hlutfall kvenna hefur orðið fyrir einhvers konar stafrænu kynferðisofbeldi. 

„Ég held að styrkleiki Norðurlandanna í þessu sé að við erum óhrædd að tala um þessa hluti og segja hvað er að og hvað við getum svo gert til að laga það.“

Best fyrir konur að vinna á Íslandi

Í árlegri glerþaksvísitölukönnun breska viðskipta­blaðsins The Economist kemur fram að best sé fyrir konur að starfa á Íslandi.

Hin Norðurlöndin eru í sætunum á eftir Íslandi. Svíar eru í öðru sæti, Finnar þriðja og Norðmenn í því fjórða. Portúgalar eru síðan í því fimmta. 

Vísitalan tekur til 29 OECD-ríkja og skoðar tíu þætti, meðal annars fæðingarorlof kvenna og karla. Neðst á listanum eru Tyrkland, Japan og Suður-Kórea. 

Katrín segir að það sem fólk taki eftir varðandi Ísland sé einmitt fæðingarorlofskerfið og stefna stjórnvalda um að orlofið skuli skiptast jafnt á milli foreldra að meginuppistöðu til. 

„Og við segjum skýrt að þetta snýst ekki eingöngu um réttindi barnanna, heldur líka um jafnrétti kynjanna. Það, ásamt auðvitað leikskólakerfinu okkar, hefur leitt til þess að atvinnuþátttaka kvenna er mjög mikil á Íslandi vegna þess að þessi kerfi virka,“ segir hún og bætir við að mjög mikið sé spurt út í þennan árangur Íslands. 

Tryggja hlut kvenna í algrímum

Eins og áður sagði er yfirskrift fundarins nýsköpun, tæknibreytingar og menntun kvenna á stafrænni öld og segir Katrín vera mjög spennandi línur fyrir fundinum í þessum efnum. 

„Ekki bara um hluti eins og stafrænt kynferðisofbeldi, heldur líka hvernig við getum eflt þátttöku í tæknigreinum. Og hvernig við getum tryggt líka sjónarmið inn í tæknigeirann sem tryggja kynjajafnrétti því að svo ótrúlega margt af því sem er að gerast núna hvað varðar til dæmis nýtingu gervigreindar byggist á gögnum. Það skiptir svo miklu máli hvernig þessi algrím sem byggjast á gögnum eru hönnuð og á hvaða gögnum þau byggjast,“ segir hún og bætir við að umræðan varðandi þessi mál á Íslandi sé ekki komin nægilega langt. 

„Við erum að nota gervigreind til að fara yfir atvinnuumsóknir, og við erum að nýta gervigreind til að greina sjúkdóma. Ef það skortir gögn um konur þá getum við búist við því að það verði ákveðin skekkja í þessum algrímum,“ segir Katrín og bætir við að umræðan um þessi mál séu yfir og alltumlykjandi á fundinum. 

„Hvernig verður eiginlega með eignarhaldið á þessari nýju og spennandi tækni sem getur skapað alveg gríðarlega möguleika.“

Bakslag í kvenréttindum

Katrín nefnir að lokum að mikið hafi einnig verið rætt um ákveðið bakslag sem hefur átt sér stað í réttindum kvenna á heimsvísu og hvernig eigi að bregðast við því. 

„Það tengist þessum tæknibreytingum og þessu stafræna ofbeldi, en líka öðrum þáttum svo sem þungunarrofsréttindum. Þannig að þetta er alveg rosalega grimm pólitík í raun og veru. Auðvitað hefur þetta bakslag, sem hefur orðið víða í ríkjum heimsins, áhrif á umræðuna hér.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert