Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir í samtali við mbl.is ekki tímabært að stofna her á Íslandi og það hafi ekki verið rætt af neinni alvöru innan ríkisstjórnarinnar. Óendanlega hafi ríkisstjórnin þó mikið rætt um varnarmál, sérstaklega eftir innrás Rússa inn í Úkraínu fyrir rúmlega ári síðan.
Í Morgunblaðinu á laugardag var rætt við Arnór Sigurjónsson, fyrrverandi skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu, um nýútkomna bók hans Íslenskur her, breyttur heimur - nýr veruleiki. Hann telur að ræða ætti af alvöru að stofna íslenskan her til að tryggja öryggi landsins og varnir til framtíðar.
„Ég fagna mjög allri umræðu um öryggis- og varnarmál. Bók Arnórs er með skýra nálgun á það sem hann telur vera verkefnið framundan og setur það líka í samhengi við áratugina á undan og almennt okkar nálgun á öryggis- og varnarmál á Íslandi. Þótt spurningar til mín hafa snúist að mestu um það hvort ég sé sammála því að stofna eigi her, þá á ég svo sem ekkert erfitt með að svara því að ég er ekki á þeim stað að það sé næsta verkefni okkar að stofna her á Íslandi,“ segir Þórdís og bætir við að ef hún væri þeirra skoðunar þá væru mörg skref á undan því að stofna ætti íslenskan her.
„Svo er spurning hvað þú skilgreinir sem her og hvort þurfi að byggja betur undir þá borgaralegu þætti sem að við höfum hér og svo framvegis.“
Þórdís segist sammála Arnóri að það þurfi meiri og dýpri umræða um öryggis- og varnarmál að eiga sér stað hérlendis.
„Og að við værum í meira mæli bæði að máta okkur við það sem önnur ríki eru að gera, og átta okkur á hvers konar púsl Ísland er í því og hvar við pössum inn í þá mynd. Vegna þess að stundum er eins og þetta varði okkur ekkert sérstaklega, og það er auðvitað ekki rétt,“ segir hún og bætir við að um gríðarmikla hagsmuni sé að ræða er kemur að okkar þáttum í varnarsamningum.
„Blessunarlega höfum við komið okkur þannig fyrir að við erum í þeim hópi sem margir vilja tilheyra, það er að segja vera okkar í NATO er hornsteinn okkar þjóðaröryggis,“ segir Þórdís og nefnir einnig tvíhliða samning Íslands við Bandaríkin.
Hún nefnir ratsjárstöðvar Íslands og aukin umsvif á Keflavíkursvæðinu vera meðal annars mikilvæga þætti í þátttöku okkar í varnarsamningum.
„Öll ríki eru að auka sín varnartengdu útgjöld og við erum auðvitað að því líka,“ segir Þórdís.
„Ég er þeirrar skoðunar að okkar leiðarljós eigi alltaf að vera að við séum verðugir bandamenn. Við eigum að taka því alvarlega að máta okkar áætlanir, okkar plön, okkar vinnu og okkar samstillingu á milli ráðuneyta, stofnanna og svo framvegis, við áætlanir, stefnumótun og annað hjá Atlantshafsbandalaginu. Þar er auðvitað verið að uppfæra alla hluti, og sömuleiðis í löndunum í kringum okkur, og það er þannig sem við þéttum okkar samstarf og bætum okkar stöðu. Af því það er ekkert land eyland í varnarmálum og alls ekki Ísland heldur.“
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Friðrik Jónsson, sérfræðing í öryggis- og varnarmálum sem segir að umræðan um íslenskan her endi alltaf úti á túni vegna tilfinninga fólks til málefnisins.
Þórdís segist ekki vita í hvað Friðrik sé að vísa, en vissulega séu varnarmál frá gamalli tíð gríðarlega viðkvæmt umræðuefni hjá mörgum.
„Það er ekki viðkvæmt fyrir mér. Mitt svar við því að það að stofna íslenskan her sé ekki næst á dagskrá hefur ekkert með tilfinningar að gera. Enda tek ég því ekki persónulega þegar ég heyri þessu varpað fram af því ég held að það sé alveg ákveðinn sannleikur í þessu,“ segir hún.
„Ég veit að það eru raddir um að Íslendingar hafi mátt og átt að taka þessu meira alvarlega í gegnum árin, en það þarf auðvitað líka að halda því til haga hversu mikið breyttist þegar að Rússlandsforseti ákvað að fara í tilgangslaust stríð inn í Evrópu og ráðast inn í fullvalda og sjálfstætt ríki. Það breytir myndinni gríðarlega. Það breytir okkar heimsmynd og veruleikanum á okkar svæði.“
Þórdís segir að það taki ákveðin tíma að melta hvers konar breytingar stríðið hefur haft í för með sér, og bætir þó við að hún geri aðrar kröfur til stjórnmálamanna.
Hún segir það gríðarlegt bakslag að „við séum komin með svona gamaldags, ómennskt, óþarfa og ógeðslegt stríð í Evrópu“.
„Það þýðir að við þurfum að máta okkur í þann veruleika, hvort sem okkur líkar betur eða verr,“ segir Þórdís og bætir við að ákveðin lína hafi verið dregin 24. febrúar árið 2022 er stríðið hófst með augljósri stigmögnun.
Hún segir stóran hluta af starfi utanríkisráðuneytisins og hennar starfi sem ráðherra snúast að afleiðingum stríðsins.
„Þannig að ég er alveg sammála því að við þurfum að átta okkur almennilega á því hvað hefur gerst, hver okkar staða er, hvaða hlutverki við höfum að gegna, bæði inni í Atlantshafsbandalaginu og í öðru samstarfi,“ segir Þórdís og leggur áherslu á að Ísland hafi verið að auka þátttöku, viðveru og upplýsingaöflun undanfarið.
„Og gert okkur meira gildandi í þessu öllu saman vegna þess að við áttum okkur fullkomlega á því hvaða breytingar hafa átt sér stað og hvað það þýðir fyrir Ísland, sem á allt undir því að fælingarmátturinn sé nægur og varnirnar séu nægar, og að sá veruleiki sem við höfum hingað til notið góðs af lifi þessa innrás af. Í öðrum veruleikum á Ísland mun lakari eða litla möguleika.“
Hefur möguleikinn um íslenskan her verið ræddur af einhverri alvöru innan ríkisstjórnarinnar?
„Nei,“ segir Þórdís einfaldlega og nefnir að engin utanaðkomandi pressa sé til staðar um að taka þá ákvörðun.
„Ég er reglulega spurð um þetta af fjölmiðlum erlendis, en á okkar fundum og í þessum samstarfi þá er ekki þrýstingur á þetta og þetta er ekki umræðuefni sem slíkt.“
„Það er margt sem við höfum verið að gera, þurfum að gera, og ég myndi vilja gera enn meira af og enn betur. Og það er líka að við séum þessir verðugu bandamenn, sem að við höfum til dæmis lagt mikla áherslu á, að vera snögg til og geta stundum hlaupið hraðar heldur en aðrir og brugðist við,“ segir Þórdís og nefnir að Íslendingar hafi flutt vopn annarra ríkja til Úkraínu tveimur dögum eftir að innrásin hófst.
„Við getum í krafti smæðar og með stuttar boðleiðir þá getum við stundum einfaldlega hlaupið hraðar. Og mér finnst að okkar sérstaða og okkar skuldbinding eigi meðal annars að vera þar, ásamt auðvitað fleiri atriðum. Af því það er þörf á því og það er eftirspurn eftir því. Við eigum að taka okkar hlutverk alvarlega, finna okkar sérstöðu og gera það sem við gerum vel. Og aftur, að vera í þessu þétta samstarfi og þétta samtali vegna þess að meira að segja löndin sem eru að setja viðbótarfjármagn í varnartengd útgjöld og þau sem eru með heri reiða sig öll á þessi varnarsamstörf. Og vita það að til þess að bæta sína stöðu – auka fælingarmátt og auka sínar varnir – þá gera þau það í gegnum Atlantshafsbandalagið og í gegnum þetta samstarf, eins og við erum að gera þó að staða okkar sé að öðru leyti ekki sú sama,“ segir utanríkisráðherrann að lokum.