Tryggja þurfi „að þetta komi aldrei fyrir aftur“

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Unnur Karen

„Þetta hefur ekki komið upp áður og er auðvitað mjög miður,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is um mál karlmanns sem missti af tækifærinu til að fá lifrarígræðslu þar sem ekki tókst að manna sjúkraflugvél til að flytja hann til Svíþjóðar.

Í frétt Vísis um málið kemur fram að manninum var tilkynnt um miðnætti fyrir um viku síðan að búið væri að finna lifur fyrir hann og að hann þyrfti að fara í aðgerð í Svíþjóð innan skamms tíma. Honum var hins vegar tilkynnt skömmu síðar að ekki tækist að manna sjúkraflugvél og því kæmist hann ekki í þessa lífsnauðsynlegu aðgerð.

Samningar verði skoðaðir

Willum segir að málið verði skoðað innan heilbrigðisráðuneytisins og rætt verði við Sjúkratryggingar Íslands, sem sjá um samninga vegna sjúkraflutninga. 

„Við verðum að tryggja með öllum ráðum að þetta komi aldrei fyrir aftur því það er svo mikið undir,“ segir hann. 

Í svari flugfélagsins Ernis, sem sér um sjúkraflug til annarra landa, til fréttastofu Vísis kemur fram að ekkert samkomulag sé um að áhafnir og flugvélar séu til taks allan sólarhringinn. 

„Við þurfum að skoða þessa þætti. Ég geri ráð fyrir því að þegar svona samningur sé gerður að þá gangi menn útfrá því að þetta sé tryggt þegar á reynir,“ segir Willum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert