Umræður verða í borgarstjórn í dag um Borgarskjalasafn Reykjavíkur, en til stendur að leggja safnið niður. Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður, Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri, og Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, rita öll greinar í Morgunblaðið í dag til varnar safninu.
Svanhildur segir í grein sinni að óvenjulega hafi verið staðið að málinu öllu, og að svo mikil leynd hafi hvílt á því að hvorki hún né starfsmenn safnsins hafi fengið að vita að það stæði til að leggja safnið niður. Bendir hún á að með því að leggja niður safnið tapist sérþekking starfsmanna þess, yfirsýn og tengsl við stjórnkerfi borgarinnar og samfella. Þá yrði Reykjavík eina höfuðborg Evrópu án borgarskjalasafns.
Kolbrún segir að hér stefni í að borgarstjóri geri afdrifarík mistök í starfi og Ólafur segir að aðförin að Borgarskjalasafninu sé smánarleg og árás á sögu borgarinnar.