Í söngleiknum 9 líf er fjallað opinskátt um æskuár Bubba Morthens, um vandræðin sem stöfuðu af því að hafa alkóhólista inni á heimilinu og eins um það hve skólakerfið tók illa á móti skrifblindu barni. Svar Bubba við því var að brynja sig og beita hörku, en inn á við leitaði hann í bækurnar.
Í viðtali í Dagmálum segir Bubbi að bækur hafi verið það stórkostlegasta sem gerst gat fyrir hann sem dreng og ungling og fullorðinn einstakling framan af fram eftir ævi. „Bækur breyttu lífi mínu, bækur mótuðu mig, bækur gáfu mer endalausa lykla og aðgang að innra landslagi og veröld. Ég las rosalega, brjálæðislega mikið, las meðan ég borðaði, las undir sæng, las á morgnana áður en ég fór í skólann, hvert sem ég fór var ég með bækur og ef ég kom inn á heimili var það fyrsta sem ég gerði að fara í bókaskápana og tékka hvort það væri eitthvað sem væri mögulega spennandi.
Svo hékk ég auðvitað í bókasafninu í Ljósheimum, í Gnoðarvoginum, heimahverfinu; ég eiginlega flutti þangað inn,“ segir Bubbi en hann hefur áður lýst því hvernig það var að koma gangandi að bókasafninu og upplifa ljómann yfir húsinu þar sem bókasafnið var. „Bókasafnið var griðastaður og undraheimur.“