BÍ segir ákvörðunina takmörkun á tjáningarfrelsi

Fulltrúar fréttastofu Vísis, Bylgjunnar og Stöðvar 2 voru kölluð fyrir …
Fulltrúar fréttastofu Vísis, Bylgjunnar og Stöðvar 2 voru kölluð fyrir dóm vegna umfjöllunar um stóra kókaínmálið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaðamanna­fé­lag Íslands lýs­ir yfir þung­um áhyggj­um vegna ákvörðunar héraðsdóm­ara í stóra kókaín­mál­inu að kalla fyr­ir rit­stjórn Vís­is vegna um­fjöll­un­ar miðils­ins um stóra kókaín­málið. Blaðamanna­fé­lagið tel­ur ákvörðun­ina vera tak­mörk­un á tján­ing­ar­frels­inu.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu á vefsíðu fé­lags­ins. 

Eins og áður hef­ur verið greint frá voru full­trú­ar frétta­stofu Vís­is, Bylgj­unn­ar og Stöðvar 2 kallaðir fyr­ir Héraðsdóm Reykja­vík­ur í dag fyr­ir að hafa farið gegn frétta­banni sem dóm­ar­inn setti í byrj­un janú­ar vegna stóra kókaín­máls­ins sem var þá til meðferðar hjá dómn­um.

Mót­mæla túlk­un dóm­ara á lög­un­um

BÍ mót­mæl­ir túlk­un dóm­ar­ans á lög­um um meðferð saka­mála í til­kynn­ingu sinni og tel­ur hana stang­ast á við ákvæði um tján­ing­ar­frelsi í stjórn­ar­skránni. BÍ und­ir­strik­ar þá að lög kveði skýrt á um að þing­hald skuli háð í heyr­anda hljóði.

Blaðamanna­fé­lagið lagðist al­farið gegn laga­breyt­ing­un­um árið 2019 og taldi það setja enn frek­ari höml­ur á frétta­flutn­ingi af því sem fram fer í rétt­ar­söl­um. Benti fé­lagið á það í um­sögn sinni um frum­varpið að það væri til þess gert að hamla því að þing­hald fari fram fyr­ir opn­um tjöld­um.

Það sé grund­vall­ar­atriði í lýðræðis­skipu­lagi að dómsvaldið sé sjálf­stætt og stærsti þátt­ur­inn í aðhaldi að þess­ari grein rík­is­valds­ins sé að þing­hald sé eins opið og nokk­ur kost­ur er og gagn­sæi um málsmeðferð tryggt með þeim hætti,“ seg­ir í til­kynn­ingu BÍ.

Fagna því að brotið var gegn fyr­ir­mæl­um dóm­ara

Jafn­framt kem­ur fram að að mati BÍ túlki dóm­ar­inn laga­ákvæðið mun þrengra en áformað var þegar það var sett. Enn frem­ur fagn­ar BÍ að frétta­stofa Stöðvar 2, Vís­is og Bylgj­unn­ar hafi ákveðið að láta reyna á túlk­un­ina með því að brjóta gegn fyr­ir­mæl­um dóm­ara.

Fé­lagið tel­ur mik­il­vægt í ljósi al­manna­hags­muna að skorið verði úr um hvort túlk­un dóm­ar­ans sé rétt­mæt enda hef­ur þessi rangtúlk­un haft þær al­var­legu af­leiðing­ar að fleiri dóm­ar­ar eru farn­ir að af­baka ákvæðið sem sama hætti og Sig­ríður Elsa.

BÍ seg­ir einu réttu ákvörðun­ina vera að fella málið gegn Vísi niður og hef­ur BÍ því falið lög­manni fé­lags­ins, Flóka Ásgeirs­syni, að skrifa bréf til Dóm­stóla­sýsl­unn­ar, alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar Alþing­is og dóms­málaráðherra þar sem að laga­lega hlið máls­ins er skýrð. 

Fé­lagið bein­ir þeirri ein­dregnu áskor­un til allra viðtak­enda bréfs­ins að leggja sitt af mörk­um til að tryggja að fjöl­miðlar fái í reynd notið þess tján­ing­ar­frels­is sem þeir eiga að njóta sam­kvæmt stjórn­ar­skrá og alþjóðasátt­mál­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert