Mikill kuldi er yfir landinu og fór frostið í tæp 18 stig við Sátu norðan Hofsjökuls síðastliðinn sólarhring. Ekkert lát er á köldum norðlægum áttum og stefnir í mjög kalda daga yfir helgina einkum inn til landsins.
Éljagangur er einkum bundinn við norðan- og austanvert landið, en lengri kaflar með björtu og sólríku veðri verða annars staðar.
Þegar loftmassinn yfir landinu er orðinn þetta kaldur á hann erfitt með að halda í mikinn raka og verður því úrkomumagnið ekki mikið. Eins breytist samsetning ískristallana sem gerir það að verkum að snjórinn binst illa saman og snjókornin eru smá. Úr verður svokallaður púðursnjór, eða snjór sem er léttur og skefur mjög auðveldlega.