Erum að stíga inn í nútímann

Guðmundur Ingi í Ráðherrabústaðnum í dag.
Guðmundur Ingi í Ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir að lengi hafi verið talað um með hvaða hætti megi rýmka dvalarleyfi fyrir fólk utan EES-svæðisins hér á landi þegar kemur að atvinnuþátttöku.

Fram kom á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum fyrr í dag að til stendur að koma á nýju og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES með það að markmiði að íslenskur vinnumarkaður verði aðgengilegri þeim sem hingað vilja koma.

Snýst um að laða til sín fólk

„Við erum að stíga hérna skref, vil ég meina, svolítið inn í nútímann og reyna að tryggja betur samkeppnishæfni Íslands miðað við önnur lönd,  vegna þess að í dag þá snýst þetta talsvert um það að laða fólk til sín annars staðar að úr heiminum og það nær lengra heldur en bara innan EES-svæðisins. Það nær líka út fyrir EES-svæðið,“  sagði Guðmundur Ingi að loknum blaðamannafundinum.

„Þess vegna tel ég að þetta kerfi sem við erum að kynna hér og þessar breytingar sem er verið að fjalla um skipti mjög miklu máli.“

Staðið aftar en aðrar þjóðir

Spurður hvort íslensk stjórnvöld hafi sofið á verðinum þegar kemur að þessari samkeppnishæfni við önnur lönd sagði hann þau hafa staðið aftar en sumar aðrar þjóðir í að tryggja að auðveldara sé að koma hingað. Til dæmis að fólk geti auðveldlega komið hingað með fjölskylduna með sér, það geti haft meiri sveigjanleika til að skipta um vinnu og meiri sveigjanleika þegar það kemur hingað í nám til að leita sér að vinnu. Einnig sagði hann að almennt séð þyrfti að einfalda stjórnsýsluna í kringum þessi mál hérlendis.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundinum í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum til dæmis með leyfisveitingar hjá tveimur stofnunum í dag, annars vegar dvalarleyfi og hins vegar atvinnuleyfi, og hér er meiningin að sameina það,“ sagði hann en nefndi að stóra breytingin væri sú að hægt væri að efla spár um mannaflaþörf, byggðar á menntun og færni. Það ætti að koma sér vel fyrir vinnumarkaðinn í heild sinni til að meta þörfina í hvert sinn.

Spurður hvar vantar flesta til starfa sagði hann að skortur væri víða, meðal annars í hugverka- og heilbrigðisgeiranum. Til dæmis gætu þessar breytingar fjölgað hjúkrunarfræðingum, sem hafa verið af skornum skammti hérlendis.

Inntur eftir því hvort tillögurnar sem kynntar voru í dag hafi eitthvað að segja varðandi málefni hælisleitenda hér á landi sagði hann ekki fjallað um atvinnuréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í þeim.

„En það fólk sem hingað kemur í leit að alþjóðlegri vernd sem hefur á að skipa þekkingu, menntun eða færni sem gæti passað inn í þá mannaflaþörf sem við erum að horfa til, að þá værum við búin að uppfylla hluta af henni með því fólki,“ sagði hann. „En ástæðan fyrir því að það fólk er að koma er fyrst og fremst vegna þess að það er að flýja átök eða ofsóknir eða annað slíkt sem gerir því illa fært að búa í eigin landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert