Fer fram á hámarksrefsingu í stóra kókaínmálinu

Anna Barbara Andradóttir saksóknari.
Anna Barbara Andradóttir saksóknari. mbl.is/Hákon

Héraðssak­sókn­ari legg­ur til að sak­born­ing­arn­ir fjór­ir í stóra kókaín­mál­inu hljóti há­marks­refs­ingu í héraðsdómi, auk þess að þeir greiði all­an sak­ar­kostnaðar.

Anna Barbara Andra­dótt­ir sak­sókn­ari rakti málið í mál­flutn­ingi sín­um fyr­ir Héraðsdómi Reykja­vík­ur í dag. Hún sagði það ótrú­verðugt að sak­born­ing­ar vissu ekki um um­fang send­ing­ar­inn­ar líkt og þeir báru all­ir fyr­ir sig í vitna­leiðslum fyr­ir dómi. Þá sagði hún málið vera þaul­skipu­lagt og mikið hafi verið lagt í að koma fíkni­efn­un­um hingað.

Hún sagði það vera dóms­ins að meta refs­ingu en vísaði til fyrri dóma, þar á meðal 12 ára fang­els­is­dóma í salt­dreifara­mál­inu.

Í því máli voru þrír menn fundn­ir sek­ir fyr­ir að hafa staðið að inn­flutn­ingi á salt­dreifara hingað til lands með Nor­rænu frá Hollandi. Í hon­um voru fald­ir 53 lítr­ar af am­feta­mín­vökva. Í sam­vinnu við óþekkt­an ís­lensk­an aðila fjar­lægðu þeir am­feta­mín­vökv­ann úr salt­dreif­ar­an­um og fram­leiddu allt að 117,5 kg af am­feta­míni í sölu og dreif­ing­ar­skyni.

Málið rakið

Páll Jóns­son, Daði Björns­son, Jó­hann­es Páll Durr og Birg­ir Hall­dórs­son fjór­ir eru all­ir ákærðir fyr­ir skipu­lagða brot­a­starf­semi, til­raun til stór­fellds fíkni­efna­laga­brots og hafa haft um­tals­verðar óút­skýrðar tekj­ur sem talið er að þeir hafi aflað sem ávinn­ings af refsi­verðum brot­um. Eru upp­hæðirn­ar frá 13 og upp í 17 millj­ón­ir á hvern ein­stak­ling, sam­tals 63 millj­ón­ir.

Birg­ir Hall­dórs­son og Jó­hann­es Páll Durr.
Birg­ir Hall­dórs­son og Jó­hann­es Páll Durr. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Upp­haf máls­ins má rekja til þess er lög­regla fékk upp­lýs­ing­ar um það að hóp­ur manna væri að flytja inn mikið magn af kókaíni hingað til lands. Á rann­sókn­ar­tíma­bil­inu fylgd­ist lög­regla með ákærða og meðákærðu auk þess sem lög­regla beitti rann­sókn­ar­úr­ræðum með heim­ild dóm­stóla.

Í ákæru héraðssak­sókn­ara seg­ir að sak­born­ing­arn­ir ásamt óþekkt­um aðila, stóðu sam­an að inn­flutn­ingi á 99,25 kíló­um (með 81%-90% styrk­leika) af kókaíni hingað til lands frá Bras­il­íu með viðkomu í Rotter­dam í Hollandi. 

Fíkni­efn­in voru fal­in í sjö trjá­drumb­um sem komið var fyr­ir í gámi en efn­in voru hald­lögð af hol­lensk­um yf­ir­völd­um þann 30. júní árið 2022. Gervi­efn­um var síðan komið fyr­ir í trjá­drumb­un­um og kom gám­ur­inn hingað til lands aðfaranótt 25. júlí og var af­greidd­ur af tollsvæði þann 2. ág­úst. 

4. ág­úst voru trjá­drumbarn­ir síðan flutt­ir að Gjá­hellu í Hafn­ar­f­irði, þar sem hin ætluðu fíkni­efni voru fjar­lægð úr trjá­drumb­un­um af Daða. 

Daði Björns­son og Páll Jónsson.
Daði Björns­son og Páll Jóns­son. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Hann pakkaði þeim þar niður og flutti til ótil­greinds aðila til að hægt yrði að koma efn­un­um í sölu og dreif­ingu. 

Lög­regla lagði hins veg­ar hald á hluta af ætluðum fíkni­efn­un­um í bif­reið Daða sem var lagt við Vefara­stræti í Mos­fells­bæ. Menn­irn­ir fjór­ir voru hand­tekn­ir sama kvöld. 

Tóku meðvitaða ákvörðun um þát­töku

Anna Barbara nefndi í mál­flutn­ingi sín­um að fag­mennska, skipu­lagn­ing og pen­ingaflæði ein­kenni skipu­lagða brot­a­starf­semi, og þar af leiðandi þetta mál.

Hún sagði alla aðila hafa verið meðvitaða um að fleiri en sak­born­ing­arn­ir fjór­ir tóku þátt í inn­flutn­ing­un­um, en það drægi þó ekki úr þeirra hlut.

Hún sagði að ekki hafi verið um til­vilj­ana­kennd­an fé­lag­skap að ræða og til­gang­ur­inn hafi ein­fald­lega verið að græða pen­inga.

„Öll hlut­verk skipta máli til þess að sjá til þess að málið gangi upp,“ sagði Anna.

Hún sagði að með því að fjölga aðilum sem koma að send­ing­unni minnk­ar áhætt­an á að all­ir verða hand­tekn­ir. „Um þetta snýst skipu­lögð brot­a­starf­semi“.

Vissu um­fangið

Anna fór yfir hlut­deild allra sak­born­ing­anna og vísaði meðal ann­ars til þess að þeir höfðu all­ir greint frá því í skýrslu­tök­um lög­reglu að þeir vissu að alla­vega ætti að flytja inn meira en 50 kíló.

Um­fangið og skipu­lagn­ing send­ing­ar­inn­ar bera þess merki að send­ing­in ætti að vera stór. Þá greind­ur þeir frá því í skýrslu­tök­um lög­reglu að þeir hafi ættu að fá greitt meira en tíu millj­ón­ir fyr­ir verk­efnið, sem þeir drógu síðan til baka.

Ljóst sé þó að þeir fengju ekki greitt svo ríku­lega fyr­ir minni send­ingu.

„Magnið með öllu for­dæma­laust“ sagði hún og bætti við að brot­in væru þaul­skipu­lögð.

Anna sagði að sak­born­ing­arn­ir hafi reynt að slá ryki í augu dóm­ara og ákæru­valds­ins með því að játa brot­in að hluta til. Þær játn­ing­ar leiði ekki til þess að refs­ing verði milduð né eng­inn eða væg­ur saka­fer­ill sak­born­ing­anna.

Bú­ast má við dóms­upp­kvaðningu eft­ir fjór­ar vik­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert