Héraðssaksóknari leggur til að sakborningarnir fjórir í stóra kókaínmálinu hljóti hámarksrefsingu í héraðsdómi, auk þess að þeir greiði allan sakarkostnaðar.
Anna Barbara Andradóttir saksóknari rakti málið í málflutningi sínum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hún sagði það ótrúverðugt að sakborningar vissu ekki um umfang sendingarinnar líkt og þeir báru allir fyrir sig í vitnaleiðslum fyrir dómi. Þá sagði hún málið vera þaulskipulagt og mikið hafi verið lagt í að koma fíkniefnunum hingað.
Hún sagði það vera dómsins að meta refsingu en vísaði til fyrri dóma, þar á meðal 12 ára fangelsisdóma í saltdreifaramálinu.
Í því máli voru þrír menn fundnir sekir fyrir að hafa staðið að innflutningi á saltdreifara hingað til lands með Norrænu frá Hollandi. Í honum voru faldir 53 lítrar af amfetamínvökva. Í samvinnu við óþekktan íslenskan aðila fjarlægðu þeir amfetamínvökvann úr saltdreifaranum og framleiddu allt að 117,5 kg af amfetamíni í sölu og dreifingarskyni.
Páll Jónsson, Daði Björnsson, Jóhannes Páll Durr og Birgir Halldórsson fjórir eru allir ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi, tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots og hafa haft umtalsverðar óútskýrðar tekjur sem talið er að þeir hafi aflað sem ávinnings af refsiverðum brotum. Eru upphæðirnar frá 13 og upp í 17 milljónir á hvern einstakling, samtals 63 milljónir.
Upphaf málsins má rekja til þess er lögregla fékk upplýsingar um það að hópur manna væri að flytja inn mikið magn af kókaíni hingað til lands. Á rannsóknartímabilinu fylgdist lögregla með ákærða og meðákærðu auk þess sem lögregla beitti rannsóknarúrræðum með heimild dómstóla.
Í ákæru héraðssaksóknara segir að sakborningarnir ásamt óþekktum aðila, stóðu saman að innflutningi á 99,25 kílóum (með 81%-90% styrkleika) af kókaíni hingað til lands frá Brasilíu með viðkomu í Rotterdam í Hollandi.
Fíkniefnin voru falin í sjö trjádrumbum sem komið var fyrir í gámi en efnin voru haldlögð af hollenskum yfirvöldum þann 30. júní árið 2022. Gerviefnum var síðan komið fyrir í trjádrumbunum og kom gámurinn hingað til lands aðfaranótt 25. júlí og var afgreiddur af tollsvæði þann 2. ágúst.
4. ágúst voru trjádrumbarnir síðan fluttir að Gjáhellu í Hafnarfirði, þar sem hin ætluðu fíkniefni voru fjarlægð úr trjádrumbunum af Daða.
Hann pakkaði þeim þar niður og flutti til ótilgreinds aðila til að hægt yrði að koma efnunum í sölu og dreifingu.
Lögregla lagði hins vegar hald á hluta af ætluðum fíkniefnunum í bifreið Daða sem var lagt við Vefarastræti í Mosfellsbæ. Mennirnir fjórir voru handteknir sama kvöld.
Anna Barbara nefndi í málflutningi sínum að fagmennska, skipulagning og peningaflæði einkenni skipulagða brotastarfsemi, og þar af leiðandi þetta mál.
Hún sagði alla aðila hafa verið meðvitaða um að fleiri en sakborningarnir fjórir tóku þátt í innflutningunum, en það drægi þó ekki úr þeirra hlut.
Hún sagði að ekki hafi verið um tilviljanakenndan félagskap að ræða og tilgangurinn hafi einfaldlega verið að græða peninga.
„Öll hlutverk skipta máli til þess að sjá til þess að málið gangi upp,“ sagði Anna.
Hún sagði að með því að fjölga aðilum sem koma að sendingunni minnkar áhættan á að allir verða handteknir. „Um þetta snýst skipulögð brotastarfsemi“.
Anna fór yfir hlutdeild allra sakborninganna og vísaði meðal annars til þess að þeir höfðu allir greint frá því í skýrslutökum lögreglu að þeir vissu að allavega ætti að flytja inn meira en 50 kíló.
Umfangið og skipulagning sendingarinnar bera þess merki að sendingin ætti að vera stór. Þá greindur þeir frá því í skýrslutökum lögreglu að þeir hafi ættu að fá greitt meira en tíu milljónir fyrir verkefnið, sem þeir drógu síðan til baka.
Ljóst sé þó að þeir fengju ekki greitt svo ríkulega fyrir minni sendingu.
„Magnið með öllu fordæmalaust“ sagði hún og bætti við að brotin væru þaulskipulögð.
Anna sagði að sakborningarnir hafi reynt að slá ryki í augu dómara og ákæruvaldsins með því að játa brotin að hluta til. Þær játningar leiði ekki til þess að refsing verði milduð né enginn eða vægur sakaferill sakborninganna.
Búast má við dómsuppkvaðningu eftir fjórar vikur.