Ökumaður bifreiðar sem olli eignatjóni á annarri bifreið flúði vettvang í stað þess að nema staðar. Tjónþoli varð því að leita til lögreglu og tilkynna atvikið, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan hafði í gær afskipti af nokkrum ökumönnum í gær, einn er grunaður um að nota farsíma við akstur og tveir höfðu keyrt undir áhrifum.
Þá þurfti að hringja eftir aðstoð lögreglu er einstaklingur í annarlegu ástandi reyndi að greiða fyrir gistingu án árangurs. Starfsmaður hótelsins óskaði eftir því að honum yrði vísað á dyr. Ein áhöfn fór á vettvang og ræddi við aðilann sem reyndist ekki hafa í nein hús að venda. Fékk hann að gista í fangaklefa að eigin ósk enda mikill kuldi úti og norðan átt.