Hæstiréttur hefur hafnað málskotsbeiðni Eiríks Sigurbjörnssonar, stofnanda Omega og sjónvarpspredikara á samnefndri stöð. Eiríkur hafði áður verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í tíu mánaða fangelsi og til að greiða 109 milljónir í sekt vegna brota á skattalögum. Landsréttur staðfesti síðar dóminn.
Eiríkur var sakfelldur fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum á árunum 2011-2016 í tengslum við starfsemi Omega og ekki gefið upp tekjur upp á 78,5 milljónir á tímabilinu. Með því komst hann hjá því að greiða 36 milljónir í skatta.
Var um að ræða persónulegar úttektir með greiðslukortum sem Eiríkur hafði afnot af og voru skuldfærð af bankareikningi í erlendu félagi sem tengdist starfsemi Omega í Noregi.
Í málskotsbeiðninni vísaði Eiríkur til þess að við skattaeftirlit ríkisskattstjóra hafi verið brotið á rétti hans til réttlátrar málsmeðferðar, en honum hafi verið gert að leggja fram gögn, að viðlagðri refsiábyrgð, sem síðan voru notuð við rannsókn málsins. Hafði hann á fyrri dómstigum farið fram á frávísun málsins vegna þessar sjónarmiða en ekki hafði verið fallist á þau.
Þá taldi Eiríkur að áfrýjnun málsins lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu um túlkun á réttindum sakbornings í aðdraganda skattrannsóknara og hvar mörk skatteftirlits og skattrannsóknar liggja. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir hins vegar að ekki verði sé að málið hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar. Er beiðninni því hafnað.
Í dómi héraðsdóms kom fram að Eiríkur hafi árið 1992 hafið starfsemi Omega, en hann og kona hans voru eigendur félagsins Omega Kristinboðkirkja auk Global Mission Network ehf og Gospel Channel Evrópa ehf. Í síðastnefnda félaginu var rekin erlend starfsemi Omega og var félagið með reikninga í Noregi og greiðslukort þar.
Ríkisskattstjóri hóf árið 2016 af eigin frumkvæði skoðun á notkun á erlendum greiðslukortum hér á landi. Í framhaldinu var notkun Eiríks á kortum í nafni Global Mission tekin til skoðunar og var hann síðar ákærður vegna málsins.
Í dómi héraðsdóms er farið yfir að Eiríkur hafi fengið greiðslur frá Omega en að þær hafi svo verið færðar sem skuld á Global Mission og að þar hafi safnast upp skuld Eiríks við félagið. Var skuldin metin sem hinar vanframtöldu tekjur og féllst héraðsdómur á það. Sagði í dómi héraðsdóms að ótvírætt hafi verið að umrædd úthlutun af fjármunum frá Global mission til Eiríks hafi verið lán sem bæri að skattleggja sem laun og færa til tekna og að lán sem þetta væri óheimilt samkvæmt ákvæðum laga um einkahlutafélög, en eigendum er óheimilt að taka lán frá eigin félögum.