Hillur tæmast í Færeyjum vegna bilunar í Dettifossi

Dettifoss á siglingu.
Dettifoss á siglingu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Íslenska flutningaskipið Dettifoss þurfti að hætta við heimför sína um helgina vegna bilunnar í vél skipsins. Færeyska Kringvarpið greinir frá því að tómlegt sé í hillum færeyskra matvöruverslana fyrir vikið.

Dettifoss átti að koma við í Þórshöfn á sunnudag en þegar hann var á leið frá Árósum um helgina var komið auga á bilun í skipinu svo að því þurfti að snúa við.

Í útvarpsviðtali við Kringvarpið segir Bent Lundsgaard, deildarstjóri í matvöruversluninni FK í Hoyvík að skortur sé á mörgum ferskvörum og að sumar hillur, einkum í grænmetisdeildinni, séu galtómar.

Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdarstjóri mannauðs- og samskiptasviðs hjá Eimskip, segir í samtali við mbl.is að bilunin hafi orðið í afgaskerfi aðalvélarinnar og þá hafi verið ákveðið að snúa aftur við til Árósa. Hún segir að skipið sé aftur lagt af stað.

Dettifoss mun því koma til Þórshafnar á morgun og Færeyingar fá því ferskvörur að nýju.

Dettifoss er flutningaskip Eimskips sem flytur ýmist vörur á milli meginlands Evrópu, Færeyja og Íslands. Dettifoss er með heimahöfn í Þórshöfn og siglir undir færeysku flaggi.

Edda Rut Björnsdóttir talsmaður Eimskips.
Edda Rut Björnsdóttir talsmaður Eimskips. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert