Komið verður á nýju og skilvirkara kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES, með það að markmiði að íslenskur vinnumarkaður verði aðgengilegri þeim sem hingað vilja koma.
Forsætisráðherra, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra kynntu tillögur þess efnis á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Þar segir meðal annars að Ísland standi fremstu ríkjum umtalsvert að baki í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að því að að laða að og gera innflytjendum kleift að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Því sé þörf á nýrri nálgun.
„Núverandi fyrirkomulag er flókið og byggist á óskilvirkum ferlum, ákvarðanataka innan þess er tilviljanakennd þar sem hún grundvallast á óljósu mati á vinnumarkaði og of þröngar skorður eru settar fyrir veitingu atvinnuleyfa.“
Íslenskt samfélag eigi mikið undir að vel takist til með breytingar á núverandi fyrirkomulagi. Leiðarljósið á breytingum á dvalar- og atvinnuleyfakerfinu eigi að vera gagnsæi, sanngirni, traust og skilvirkni.
Engar vísbendingar séu um annað en að Ísland verði að treysta á aðflutt fólk til að manna fjölmörg störf sem verða til á komandi árum og áratugum til að halda uppi lífsgæðum og velsæld í íslensku samfélagi.
„Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem koma hingað til lands er að leita að bættum lífsgæðum og að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og mikilvægt er að íslenskur vinnumarkaður verði aðgengilegri þeim sem hingað vilja koma.“
Gerðar verði ýmsar breytingar til þess að rýmka reglur um dvalar- og atvinnuréttindi útlendinga í því skyni að gera Ísland að eftirsóknarverðari og samkeppnishæfari kosti fyrir erlenda starfsmenn og nema utan EES, gera íslenskt samfélag fjölbreyttara og um leið styrkja efnahagslífið til framtíðar.
Nýju kerfi verði komið á fót sem taki mið af mannaflaþörf. Vinnumálastofnun greini þörf vinnumarkaðar að fenginni ráðgjöf utanaðkomandi sérfræðinga og aðila vinnumarkaðarins sem staðfest verði af félags- og vinnumarkaðsráðherra. Samhliða verði eftirlit með félagslegum undirboðum eflt. Vinnuskiptasamningum við önnur ríki verði fjölgað.
Dvalarleyfi, sem eru gefin út af Útlendingastofnun, og atvinnuleyfi, sem eru gefin út af Vinnumálastofnun, verði sameinuð í dvalarleyfi sem skipt verði í ólíka flokka og gefin út af Útlendingastofnun.
Til að gera umsóknarferlið aðgengilegra fyrir umsækjendur sem og að auðvelda úrvinnslu umsókna í nýju kerfi eru lögð til metnaðarfull áform til að hraða stafvæðingu. Með aukinni sjálfvirknivæðingu umsóknarferlisins, sem byggir á stafvæðingu, verður hægt að tryggja styttri málsmeðferðartíma, auðvelda gagnaúrvinnslu og auka yfirsýn yfir gögn um umsækjendur.