Koma á nýju kerfi um atvinnuréttindi útlendinga

Tillögurnar voru kynntar í Ráherrabústaðnum fyrr í dag.
Tillögurnar voru kynntar í Ráherrabústaðnum fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Komið verður á nýju og skil­virk­ara kerfi um at­vinnu­rétt­indi út­lend­inga utan EES, með það að mark­miði að ís­lensk­ur vinnu­markaður verði aðgengi­legri þeim sem hingað vilja koma.

For­sæt­is­ráðherra, há­skóla- iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra og fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra kynntu til­lög­ur þess efn­is á blaðamanna­fundi í Ráðherra­bú­staðnum í dag. Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu á vef stjórn­ar­ráðsins.

Þar seg­ir meðal ann­ars að Ísland standi fremstu ríkj­um um­tals­vert að baki í alþjóðleg­um sam­an­b­urði þegar kem­ur að því að að laða að og gera inn­flytj­end­um kleift að verða full­gild­ir þátt­tak­end­ur í sam­fé­lag­inu. Því sé þörf á nýrri nálg­un.

„Nú­ver­andi fyr­ir­komu­lag er flókið og bygg­ist á óskil­virk­um ferl­um, ákv­arðana­taka inn­an þess er til­vilj­ana­kennd þar sem hún grund­vall­ast á óljósu mati á vinnu­markaði og of þröng­ar skorður eru sett­ar fyr­ir veit­ingu at­vinnu­leyfa.“

Ísland verði að treysta á aðflutt fólk 

Íslenskt sam­fé­lag eigi mikið und­ir að vel tak­ist til með breyt­ing­ar á nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi. Leiðarljósið á breyt­ing­um á dval­ar- og at­vinnu­leyf­a­kerf­inu eigi að vera gagn­sæi, sann­girni, traust og skil­virkni.

Eng­ar vís­bend­ing­ar séu um annað en að Ísland verði að treysta á aðflutt fólk til að manna fjöl­mörg störf sem verða til á kom­andi árum og ára­tug­um til að halda uppi lífs­gæðum og vel­sæld í ís­lensku sam­fé­lagi.

„Yf­ir­gnæf­andi meiri­hluti þeirra sem koma hingað til lands er að leita að bætt­um lífs­gæðum og að verða virk­ir þátt­tak­end­ur í ís­lensku sam­fé­lagi og mik­il­vægt er að ís­lensk­ur vinnu­markaður verði aðgengi­legri þeim sem hingað vilja koma.“

Aðgerðir sem ráðist verður í:

  • Regl­ur um dval­ar- og at­vinnu­rétt­indi út­lend­inga verði rýmkaðar

Gerðar verði ýms­ar breyt­ing­ar til þess að rýmka regl­ur um dval­ar- og at­vinnu­rétt­indi út­lend­inga í því skyni að gera Ísland að eft­ir­sókn­ar­verðari og sam­keppn­is­hæf­ari kosti fyr­ir er­lenda starfs­menn og nema utan EES, gera ís­lenskt sam­fé­lag fjöl­breytt­ara og um leið styrkja efna­hags­lífið til framtíðar.

  • Fyr­ir­sjá­an­leiki verði tryggður með spá um mannaflaþörf

Nýju kerfi verði komið á fót sem taki mið af mannaflaþörf. Vinnu­mála­stofn­un greini þörf vinnu­markaðar að feng­inni ráðgjöf ut­anaðkom­andi sér­fræðinga og aðila vinnu­markaðar­ins sem staðfest verði af fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra. Sam­hliða verði eft­ir­lit með fé­lags­leg­um und­ir­boðum eflt. Vinnu­skipta­samn­ing­um við önn­ur ríki verði fjölgað.

  • Stjórn­sýsla verði ein­földuð með sam­ein­ingu dval­ar- og at­vinnu­leyfa

Dval­ar­leyfi, sem eru gef­in út af Útlend­inga­stofn­un, og at­vinnu­leyfi, sem eru gef­in út af Vinnu­mála­stofn­un, verði sam­einuð í dval­ar­leyfi sem skipt verði í ólíka flokka og gef­in út af Útlend­inga­stofn­un.

  • Um­sókn­ar­ferli um dval­ar­leyfi verði ein­faldað og bætt með staf­væðingu

Til að gera um­sókn­ar­ferlið aðgengi­legra fyr­ir um­sækj­end­ur sem og að auðvelda úr­vinnslu um­sókna í nýju kerfi eru lögð til metnaðarfull áform til að hraða staf­væðingu. Með auk­inni sjálf­virkni­væðingu um­sókn­ar­ferl­is­ins, sem bygg­ir á staf­væðingu, verður hægt að tryggja styttri málsmeðferðar­tíma, auðvelda gagna­úr­vinnslu og auka yf­ir­sýn yfir gögn um um­sækj­end­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert