Leitin að Stefáni Arnari Gunnarssyni heldur áfram í dag. Björgunarsveitarmenn á vegum Landsbjargar munu fara fótgangandi um leitarsvæði ásamt því að nýta báta og dróna. Fáar ábendingar hafa borist lögreglu vegna málsins.
Þetta segir Kristján Helgi Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá aðgerða- og skipulagsdeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Hann segir jafnframt að leitarsvæðið sé svipað og áður, einblínt verði á Álftanes og nágrenni. Landsbjörg og rannsóknardeild lögreglu vinni að málinu. Verið sé að skoða eftirlitsmyndavélar víða.
Kristján segir núverandi leitarskipulag ná út þessa viku en það verði endurskoðað í kringum vikulok.