Miðlunartillaga Ástráðs Haraldssonar, setts ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, hefur verið samþykkt og tekið gildi sem kjarasamningur milli aðila.
Þetta var kunngjört í tilkynningu frá embætti ríkissáttasemjara rétt í þessu.
Kjörsókn Eflingar var um 22,77% og var tillagan samþykkt með 4.189 atkvæðum gegn 744 atkvæðum. Voru því 84,92% þeirra sem greiddu atkvæði hlynnt tillögunni en 15,08% á móti henni.
Kjörsókn Samtaka atvinnulífsins var mun hærri eða um 81,37%. Var munurinn á atkvæðum sömuleiðis meira afgerandi en greidd atkvæði með tillögunni voru 424.694, sem gera 98,5% greiddra atkvæða, en aðeins 6.090 atkvæði voru greidd gegn henni, eða um 1,41%.
Atkvæðagreiðsla um tillöguna hófst á hádegi á föstudaginn fyrir helgi og lauk klukkan 10 í dag. Á vef embættisins kemur fram að félagar í Eflingu fái sömu launahækkanir og í samningi annarra félaga Starfsgreinasambandsins. Þá verða launahækkanir afturvirkar frá 1. nóvember 2022.
Kauptaxtar aðalkjarasamnings hækka á bilinu 35.000 krónur til 52.258 krónur á mánuði og er meðalhækkun um 42.000 krónur. Hlutfallsleg hækkun kauptaxta er á bilinu 9.5% til 13% og meðalhækkun rúmlega 11%. Með tillögunni er stofnað nýtt starfsheiti, almennt starfsfólk gistihúsa, sem að loknum þriggja mánaða reynslutíma raðast í launaflokk 6.
Mánaðarlaun félagsfólks sem tekur ekki laun samkvæmt kauptöxtum kjarasamnings hækka um 33.000 krónur frá 1. nóvember 2022.