Reiknistofa bankanna harmar að hafa fyrir mistök afhent gögn um fjárhagsfærslur viðskiptavina bankans Indó til Kviku, að sögn Ragnhildar Geirsdóttur, forstjóra RB í samtali við mbl.is.
„Við erum náttúrulega búin að reka greiðslukerfi í 50 ár og eru því öll kerfi og ferlar orðin frekar þroskuð og virka vel, en svo geta alltaf orðið mannleg mistök eða röð mannlegra mistaka.“
Hún segir Kviku vera í breytingaferli varðandi gagnamóttökukerfi og að í því hafi mistökin átt sér stað og gögnin stimpluð á rangt bankanúmer.
Mánuður leið frá því að gögn Indó voru send til Kviku þann 3. febrúar, þangað til RB og Indó var tilkynnt um mistökin. Ragnhildur segir gögnin einfaldlega ekki hafa verið móttekin fyrr en 27. febrúar í kerfi Kviku en að 3. mars hafi starfsmenn Kviku uppgötvað að um röng gögn væri að ræða og eytt þeim samstundis.
Spurð hvaða aðferðum RB beiti til að staðfesta réttmæti þess að ekki hafi verið átt við gögn í aðstæðum sem þessum segir hún almennt mikið traust ríkja innan fjármálakerfisins og að RB hafi treyst því að Kvika segði rétt frá að gögnin hefðu ekki verið rýnd og hafi strax verið eytt.
Ragnhildur segir að málinu sé að sjálfsögðu tekið alvarlega og bendir til þess að RB hafi rekið starfsemi sína í um 50 ár á áreiðanlegan og öruggan hátt. Hún segir vinnuna við að koma í veg fyrir mál sem þessi sé stöðug, meðal annars með endurnýjun kerfa og aukinni sjálfvirkisvæðingu.
Hún ítrekar að engin þurfi að hafa áhyggjur af því að gögnin þeirra fari á flakk en þau hafi aldrei farið út fyrir bankana.
Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri Indó, tekur undir með Ragnhildi og segir mannleg mistök alltaf geta átt sér stað. Hann segir Indó hvorki áfellast RB né Kviku og segist bera fullt traust til beggja fyrirtækja, enda hafi bæði verið gífurlega opin varðandi málið og brugðist hratt og rétt við þegar mistökin uppgötvuðust.
Aðspurður um atburðarás mistakanna segir hann RB og Kviku verða að svara fyrir það.
„Af því að við höfðum enga aðkomu að þessu og þetta er svo helber tilviljun að við lendum í þessu, þá er ekki nokkur leið fyrir okkur að sjá eitt eða neitt. Það að útskýra hvað gerðist liggur því alfarið hjá RB og Kviku.“
Haukur segir að viðskiptavinir þeirra hafi sýnt málinu skilning og brugðist vel við, en Indó tók ákvörðun um að upplýsa viðskiptavini sína að fullu, enda sé ekki bara hægt að vera opin og gagnsær stundum.
Uppfært 8.3.2023, 16:50 :
Upphaflega var haft eftir Ragnhildi Geirsdóttur forstjóra Reiknisstofu Bankanna að „RB geti séð í sínu kerfi hvenær gögnin voru opnuð og hvenær þeim hefði verið eytt.“ en samkvæmt upplýsingafulltrúa RB er svo ekki, heldur hafi RB fengið staðfest frá Kviku að gögnunum hafi verið eytt.