Verjandi timbursalans í stóra kókaínmálinu sagði hann hafa verið afvegaleiddan og notaðan til að smygla tæplega 100 kílóum af kókaíni til landsins og krafðist því sýknu að hluta til fyrir skjólstæðing sinn.
Málflutningur fer fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og tók Unnsteinn Örn Elvarsson, verjandi Páls, fyrstur til máls á eftir saksóknara.
Saksóknari leggur til að sakborningarnir fjórir, Páll Jónsson, Daði Björnsson, Jóhannes Páll Durr og Birgir Halldórsson hljóti hámarksrefsingu, það er að segja tólf ára fangelsisvist.
Unnsteinn Örn Elvarsson, verjandi Páls, sagði að Páll hafi ekki verið meðvitaðir um umfang sendingarinnar og vísaði til þess að hann ætti engan sakaferil að baki. Páll hefur þó játað sök að hluta til.
Páll er á sjötugsaldri og átti fyrirtækið, Hús og Harðviður, sem flutti inn timbrið sem fíkniefnin voru falin í.
Páll lýsti því fyrir dómi í janúar að „andlegt þrot“ hefði leitt til þess að hann samþykkti að flytja inn kókaínið.
„Ég lét til leiðast. Það voru mín mistök,“ sagði Páll og greindi frá því að árið 2021 hafi hann misst bæði son sinn og tengdamóður. Þá hafi stjúpsonur hans glímt við alvarleg veikindi.
Fyrir dómi sagði Páll að hann hafi ekki vitað um umfang sendingarinnar og að hann hafi talið upphaflega væri um sex kíló væri að ræða.
Unnsteinn vísaði til skýrslutöku lögreglu og sagði að Páll hafi fengið áfall er hann fékk að vita að um tæplega 100 kíló væri að ræða.
Þá nefndi Unnsteinn meðal annars að upphæðirnar sem mennirnir áttu að fá greitt fyrir verkefnið samsvari ekki götuvirðis kókaíns, upphæðin hefði átt að vera umtalsvert meiri ef markar umfjöllun fjölmiðla um götuvirð, en Páll greindi frá því í skýrslutöku lögreglu að hann hefði átt að fá 30 milljónir fyrir sinn þátt. Í seinni skýrslutökum dró hann það hins vegar til baka.
Saksóknari nefndi í sínum málflutningi að það væri dómsins að meta refsingu en vísaði til fyrri dóma, þar á meðal 12 ára fangelsisdóma í saldreifaramálinu.
Unnsteinn sagði ósanngjarnt að bera þessi mál saman, meðal annars af því að sakborningarnir í því máli áttu langan sakaferil að baki ólíkt Páli.
Unnsteinn sagði að rannsókn lögreglu væri vörulega ábótavant og að lítill áhugi væri að ná höfuðpaurum málsins. Einnig gagnrýndi hann sýnatöku hollensku lögreglunar á fíkniefnunum.
Hollenska lögreglan haldlagði 99,25 kíló af kókaín og var einungis 10% af efninu tekið til skoðunar. Er hollenska lögreglan bar vitni fyrir dómi sagði hún að það væri regla samkvæmt evrópskum stöðlum.
Unnsteinn sagði að málsmeðferðin og rannsókn málsins færi fram á Íslandi og því ættu íslenskar reglur að gilda.
Unnsteinn nefndi að lokum að dómur skildi líta til þess að Páll væri á eftirlaunaaldri og ætti við veikindi að stríða, bæði líkamleg og andleg. Þá glími hann líklega við byrjunarstig hvítblæðis sem hann hefur ekki fengið neina aðstoð við.
Unnsteinn nefndi einnig að taka ætti tillit til þess að Páll sé fjölskyldumaður.