Stjórn Happdrættis DAS hefur ráðið Valgeir Elíasson sem framkvæmdastjóra. Hann mun hann starfa við hlið fráfarandi forstjóra, Sigurðar Ágústs Sigurðssonar, fram í maí næstkomandi.
Valgeir þekkir vel til starfa Happdrættis DAS. Hann starfaði sem deildarstjóri bókhalds- og launadeildar Hrafnistuheimilanna, en bæði happdrættið og Hrafnistuheimilin starfa undir hatti Sjómannadagsráðs.
Valgeir er menntaður viðskiptafræðingur með MAcc-gráðu frá Háskóla Íslands frá árinu 2011. Hann hefur unnið hjá Hrafnistuheimilunum í 11 ár en þar á undan vann hann hjá KPMG og Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Hann er kvæntur og á þrjú börn og þrjú barnabörn, að því er kemur fram í tilkynningu.
Á þeim rúmum 69 árum sem Happdrætti DAS hefur starfað hefur það verið fjárhagslegur bakhjarl í allri uppbyggingu Hrafnistuheimilanna auk þess sem 40% af hagnaði happdrættisins rann til uppbyggingar dvalarheimila aldraða út um land allt í 25 ár.
„Ég veit að Happdrætti DAS hefur skilað góðu búi til þeirra málefna sem það styrkir, þ.e.a.s Hrafnistuheimilin á höfuðborgarsvæðinu. Mikið grettistak hefur verið unnið í að nútímavæða hjúkrunarheimilin og gera þau þannig að þeim sem dveljast þar líður mjög vel. Happdrættið hefur stutt einna helst við þessa nútímavæðingu og mitt starf mun snúast um að halda þessum stuðningi áfram,“ segir Valgeir í tilkynningunni.