Refsað fyrir meiriháttar skattalagabrot

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hef­ur dæmt Sig­ur­berg Inga Pálma­son og Pét­ur Pét­urs­son í 14 og 9 mánaða fang­elsi fyr­ir meiri hátt­ar brot gegn skatta­lög­um. Refs­ing Pét­urs er skil­orðsbund­in til tveggja ára. Þá er hvor­um þeirra um sig gert að greiða rúm­ar 17 millj­ón­ir króna í sekt í rík­is­sjóð.

Sig­ur­bergi var með dómi árið 2019 gert að sæta fang­elsi í 12 mánuði, þar af níu mánuði skil­orðsbundið til tveggja ára, auk þess sem hon­um var gert að greiða 160 millj­ón­ir króna í sekt til rík­is­sjóðs, fyr­ir meiri hátt­ar brot á skatta­lög­um og lög­um um bók­hald. Litið var á saka­fer­il Sig­ur­bergs hon­um til refsiþing­ing­ar í mál­inu.

Málið varðaði skil á ann­ars veg­ar virðis­auka­skatti og hins veg­ar staðgreiðslu op­in­berra gjalda á ár­un­um 2018 og 2019 fyr­ir einka­hluta­fé­lag. Sig­ur­berg­ur Ingi stýrði dag­leg­um rekstri þess og var varamaður í stjórn en Pét­ur var fram­kvæmda­stjóri fé­lags­ins og átti einnig sæti í stjórn.

Létu þeir und­ir höfuð leggj­ast að skila inn­heimt­um virðis­auka­skatti að fjár­hæð rúm­um 16 millj­ón­um króna og staðgreiðslu op­in­berra gjalda að fjár­hæð sam­tals rúm­um 2,5 millj­ón­um króna.

Báðum var þeim gert að greiða sak­ar­kostnað til rík­is­sjóðs. Pétri var gert að greiða mál­svarn­ar­laun skipaðs verj­anda síns, Bjarna Hólm­ars Ein­ars­son­ar lög­manns, 2,3 millj­ón­ir króna en Sig­ur­bergi var gert að greiða mál­svarn­ar­laun skipaðs verj­anda síns, Sveins Andra Sveins­son­ar lög­manns, 3,2 millj­ón­ir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert