Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Sigurberg Inga Pálmason og Pétur Pétursson í 14 og 9 mánaða fangelsi fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum. Refsing Péturs er skilorðsbundin til tveggja ára. Þá er hvorum þeirra um sig gert að greiða rúmar 17 milljónir króna í sekt í ríkissjóð.
Sigurbergi var með dómi árið 2019 gert að sæta fangelsi í 12 mánuði, þar af níu mánuði skilorðsbundið til tveggja ára, auk þess sem honum var gert að greiða 160 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs, fyrir meiri háttar brot á skattalögum og lögum um bókhald. Litið var á sakaferil Sigurbergs honum til refsiþingingar í málinu.
Málið varðaði skil á annars vegar virðisaukaskatti og hins vegar staðgreiðslu opinberra gjalda á árunum 2018 og 2019 fyrir einkahlutafélag. Sigurbergur Ingi stýrði daglegum rekstri þess og var varamaður í stjórn en Pétur var framkvæmdastjóri félagsins og átti einnig sæti í stjórn.
Létu þeir undir höfuð leggjast að skila innheimtum virðisaukaskatti að fjárhæð rúmum 16 milljónum króna og staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð samtals rúmum 2,5 milljónum króna.
Báðum var þeim gert að greiða sakarkostnað til ríkissjóðs. Pétri var gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Hólmars Einarssonar lögmanns, 2,3 milljónir króna en Sigurbergi var gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar lögmanns, 3,2 milljónir króna.