Ritstjórn Vísis var boðuð í dómssal í morgun og gefinn kostur á að útskýra birtingu fréttar í stóra kókaínmálinu.
Aðalmeðferð í málinu hófst 19. janúar og greindi dómari þá frá því að fjölmiðlum væri óheimilt að greina frá skýrslutökunum fyrr en þeim er öllum lokið í málinu. Þeim lauk tæplega sjö vikum síðar, 6. mars.
Vísir virti hins vegar bann dómara að vettugi þar sem miðillinn taldi um oftúlkun á lögum að ræða og birti frétt upp úr vitnaleiðslum sakborninganna fjögurra í málinu 3. mars.
Dómari vitnaði í því samhengi í síðustu málsgrein 10 gr. 1. þáttar laga um meðferð sakamála, þar sem segir:
Nú telur dómari að nægilegt sé til þess að tryggja þá hagsmuni sem búa að baki 1. mgr. að leggja bann við opinberri frásögn af þinghaldi skv. 2. mgr. 11. gr. og skal hann þá grípa til þess úrræðis í stað þess að loka þinghaldi.
Reimar Pétursson, verjandi Vísis, sagðist í dómssal ekki hafa fengið gögn málsins en rakti þó ástæður ritstjórnarinnar og vísaði í lög um tjáningarfrelsi og lagameðferð sakamála. Þá gerði hann kröfu um málsmeðferð vegna málsins. Reimar sagði að sýknu yrði krafist.
Hann sagði umbjóðendur sína vera í óþægilegri stöðu vegna tengsla við stóra kókaínmálið.
Dómari sagði að ekkert hefði verið ákveðið um sektir eða aðra refsingu og að málið yrði skoðað. Þá sagði hann að ef dómurinn myndi halda þessu máli áfram yrði gert úr því sérstakt mál. Saksóknari sagði að skoða þyrfti hvort lög hefðu verið brotin.
Í dag fer fram málflutningur saksóknara og verjanda í málinu og þá má búast við dómsuppkvaðningu um fjórum vikum síðar.