„Það er ugla í hlöðunni!“

Uglan, tignarleg í hlöðunni.
Uglan, tignarleg í hlöðunni. Ljósmynd/Julien Jérome Leclercq.

Áhuga­ljós­mynd­ar­inn Ju­lien Jér­ome Leclercq datt í lukkupott­inn fyr­ir skömmu þegar hann náði fal­leg­um mynd­um af branduglu skammt frá Hofsósi.

Mynd­irn­ar tók hann inni í hlöðu á sveita­bæn­um Hrauni við Sléttu­hlíðar­vatn þar sem Leclercq starfar. Hann er belg­ísk­ur og hef­ur búið hér­lend­is í fimm ár. Fljót­lega eft­ir kom­una hingað fékk hann mik­inn áhuga á ljós­mynd­un og hef­ur all­ar göt­ur síðan reynt að fanga á ljós­mynd dýr úti í villtri nátt­úr­unni, þar á meðal refi, lunda og krumma.

Ný linsa kom að góðum not­um

Í byrj­un síðustu viku eignaðist hann nýja linsu, sem hann vonaðist til að gæti hjálpað sér við að ná enn betri mynd­um. Hvorki gekk þó né rak til að byrja með og kvartaði hann sár­an yfir því að eng­in villt dýr væri leng­ur að finna úti í nátt­úr­unni sem hann gæti myndað.

Það átti eft­ir að breyt­ast því á sunnu­dags­kvöld hringdi sam­starfsmaður hans í hann og sagði: „Ju­li­an, þú átt ekki eft­ir að trúa mér. Það er ugla í hlöðunni! Þetta er draum­ur orðinn að veru­leika“.

Leclercq þurfti að „hræða hana örlítið“ til að ná góðum …
Leclercq þurfti að „hræða hana ör­lítið“ til að ná góðum mynd­um við rétt birtu­stig Ljós­mynd/​Ju­lien Jér­ome Leclercq.

Leclercq beið ekki boðanna og dreif sig út í hlöðu með mynda­vél­ina sína og nýju lins­una meðferðis. Hann kom auga á tíg­ul­leg­an fugl­inn en áttaði sig fljótt á því að það var of dimmt inni til að ná al­menni­leg­um mynd­um. Hann ákvað því að bíða til morg­uns þegar birt­an var orðin betri, smellti af hon­um mynd­um og opnaði síðan allt upp á gátt til að hleypa ugl­unni út úr hlöðunni.

Þurfti að hræða hana

Spurður nán­ar um hvernig gekk að fanga ugl­una á ljós­mynd seg­ir hann að hún hafi til að byrja með haldið sig í skugg­an­um. Þurfti hann því að „hræða hana ör­lítið“ til að ná góðum mynd­um af henni við rétt birtu­stig. „Ég er mjög ánægður með út­kom­una. Ég hefði ekki getað bú­ist við því betra,“ seg­ir Leclercq, sem ætl­ar að deila afrakstr­in­um á sam­fé­lags­miðlum.

Vegna þess hve ugl­ur eru sjald­gæf­ar reikn­ar hann ekki með því að ná aft­ur mynd­um sem þess­um. Hann hef­ur einu sinni áður séð uglu á Íslandi, eða í Dala­byggð þegar eins slík flaug fyr­ir ofan hann og hvarf síðan sjón­um.

Ljós­mynd/​Ju­lien Jér­ome Leclercq.

Eru þetta bestu mynd­ir sem þú hef­ur tekið á Íslandi?

Já, þetta eru bestu mynd­irn­ar vegna þess að á þess­um fimm árum eru tæk­in sem ég nota orðin betri, bæði mynda­vél­in og lins­an. Ég er líka kom­in með betri tengsl við aðra ljós­mynd­ara, þannig að tækn­in mín er sömu­leiðis orðin betri sem og úr­vinnsl­an. Það er gott að ég tók mynd­irn­ar af ugl­unni núna en ekki fyr­ir fimm árum því þá hefði ég aldrei getað tekið þær,“ seg­ir Ju­lien Jér­ome Leclercq.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert