Þátttaka Daða hluti af sjálfskaðandi hegðun

Daði Björnsson er hér til hægri.
Daði Björnsson er hér til hægri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verjandi eins sakbornings í stóra kókaín málinu sagði að skjólstæðingur hans hafi verið í neyslu fíkniefna um nokkurra hríð og að einstaklingar í þeirri stöðu upplifi að þeir hafi litlu að tapa. Því hafi þátttaka sakborningsins í að taka á móti 100 kílóum af kókaíni síðasta sumar hafa verið hluta af sjálfskaðandi hegðun.

Daði Björnsson er þrítugur Reykvíkingur sem tók á móti fíkniefnunum sem komu frá Brasilíu og  voru falin í trjádrumbum.

Arnar Kormákur Friðriksson, verjandi Daða, krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa fyrir skjólstæðing sinn í málflutningi sínum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Héraðssak­sókn­ari legg­ur til að sak­born­ing­arn­ir hljóti há­marks­refs­ingu í héraðsdómi, auk þess að þeir greiði all­an sak­ar­kostnaðar.

Alvarlegar athugasemdir við ákæru

Arnar sagði Daða hafa viljað koma hreint fram og játa sök, en það væri ekki hægt í ljósi þess hvernig ákæran er lögð fram. Arnar gerir alvarlegar athugasemdir við ákæru saksóknara.

Arnar Kormákur Friðriksson, verjandi Daða.
Arnar Kormákur Friðriksson, verjandi Daða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Daði er ákærður fyrir skipu­lagða brot­a­starf­semi, til­raun til stór­fellds fíkni­efna­laga­brots og hafa haft um­tals­verðar óút­skýrðar tekj­ur sem talið er að þeir hafi aflað sem ávinn­ings af refsi­verðum brot­um. Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa í vörslu sinni maríjú­ana.

Hálfgert eyland

Arnar sagði aðkomu Daða vera afmarkaða og skipulagning innflutningsins lokið er Daði kom að málinu, og brotið þar af þegar leiðandi framið.

Daði lýsti því fyrir dómi í janúar að hann hafi komist í kynni við mann sem fékk hann í verkið, sem Daði hélt að ætti að klárast fljótt en það dróst á langinn. Hann fjarlægði efnin úr trjádrumbunum, pakkaði fíkniefnunum niður og flutti til ótil­greinds aðila til að hægt yrði að koma efn­un­um í sölu og dreif­ingu. 

Daði sagði að hann hafi fundið fyr­ir mikl­um þrýst­ingi frá þess­um ónefnda aðila og fund­ist hann vera fast­ur. Hann sagði sam­skipt­in hafa valdið hon­um mik­illi streitu. 

Úr dómssal.
Úr dómssal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Arnar nefndi að Daði skipulagði ekki neitt heldur fylgdi einungis fyrirmælum. Hann hafi ekki haft neina vitneskju um kaup eða sölu. Hann sagði Daða því vera hálfgert eyland í málinu. Daða hafi fundist það bæði pínlegt og vandræðalegt að hann skyldi hafa tekið þátt í þessu smygli fyrir litla upphæð.

Arnar sagði þátttöku Daða tilviljanakennda og benti á að enginn tengsl séu á milli hans og hinna sakborninganna.

Verjandinn sagði einnig að óútskýrðar tekjur, um 16 milljónir króna, Daða tengist að engu leyti málinu að öðru leyti en pening sem hann fékk til leigu á húsnæðinu sem fíkniefnin voru geymd í.

Eðlileg refsing þrjú ár í fangelsi

Arnar nefndi að Daði hafi hreinan sakaferil og verið samvinnuþýður í rannsókn lögreglu. Þá telur hann eðlilegt að taka tillit til hegðunar Daða undanfarið en hann hefur lagt stund á nám og verið virkur í meðferðarstarfi á Litla-Hrauni.

Arnar lagði áherslu á að hlutur Daða væri mun veigaminni en hluta höfuðpauranna sem skipulögðu smyglið, og því væri eðlileg refsing fyrir brot Daða um þriggja ára fangelsisvist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka