„Þeir eru bókstaflega aldrei að fara að sjá mig“

Edda segir að drengjunum líði vel á Íslandi, þeir hafi …
Edda segir að drengjunum líði vel á Íslandi, þeir hafi eignast vini og séu í góðu sambandi við stórfjölskylduna. Ljósmynd/Aðsend

„Ég væri ekki að þessu ef ég vissi að börnin mín hefðu það gott og þau vildu vera í Noregi. Þá myndi ég sætta mig við þetta, en það er ekki þannig,“ segir Edda Björk Arnardóttir, sem nam þrjá syni sína á brott frá föður þeirra í Noregi fyrir tæpu ári síðan, þar sem hún taldi velferð þeirra ógnað. Hún ætlar að fara með mál sitt til Mannréttindadómstóls Evrópu til að reyna að fá þeim úrskurði hnekkt að hún þurfi að afhenda drengina föður þeirra.

Hæstiréttur hafnaði í síðustu viku málskotsbeiðni hennar, en Landsréttur staðfesti fyrir rúmum mánuði dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um synirnir skuli teknir úr hennar umsjá og afhentir föður þeirra í Noregi. Þvert gegn vilja drengjanna sjálfra. Í dómi héraðsdóms er einnig horft framhjá niðurstöðu dómskvadds matsmanns sem segir að taka eigi mark á því sem þeir segja.

„Þeir virðast allir vera mjög einlægir og svona flottir og ég met það þannig að þeir eru, já bæði virðast vera bara á réttum stað í þroska og líka að skoðanir sem þeir eru að lýsa séu einlægar og ég tel að það ætti að taka mark á því sem þeir segja,“ segir í skýrslu matsmanns fyrir dómi.

Flutningar núna gætu reynst erfiðir

Um er að ræða þrjá drengi, tvíbura sem verða 12 ára í mars og einn er 9 ára síðan í september. Faðirinn, sem er íslenskur, fer einn með forsjá þeirra og hafa þeir lögheimili hjá honum í Noregi. Allir hafa þeir greint skýrt frá því að þeir vilji búa hjá móður sinni á Íslandi og vilji ekki fara aftur til Noregs. Dómkvaddur sálfræðingur í málinu telur að það geti verið þeim skaðlegt að vera afhentir föður sínum, miðað við þá óvissu sem ríkir um umgengni þeirra við móður sína og systur í framhaldinu.

Edda segir að drengjunum líði vel á Íslandi. Þeir séu skóla, stundi íþróttir og eigi marga vini. Þá séu þeir í góðum samskiptum við stórfjölskylduna sína, sem hún telur mjög mikilvægt. Rímar það við það sem fram kemur í matsgerðinni, en þar segir:

„Þeir hafa aðlagast lífi sínu á Íslandi nokkuð vel og þau stakkaskipti sem flutningar myndu núna hafa gætu reynst drengjunum erfiðir. Þeir lýsa því allir að þeir vilji núna búa á Íslandi frekar og vera með með móður en föður því þeir hafi verið lengi frá móður.“

16 klukkutíma umgengni á ári

Samkvæmt norskum dóms­úrsk­urði skal faðirinn fara einn með forsjá drengjanna og þeir hafa lögheimili hjá honum. Umgengni skal þannig háttað að þeir fá aðeins hitta móður sína undir eft­ir­liti fjór­um sinn­um á ári, fjór­ar klukku­stund­ir í senn og skal þá töluð norska. Sam­kvæmt sama úr­sk­urði eiga tvær al­syst­ur drengj­anna hins veg­ar að hafa lög­heim­ili hjá móður sinni á Íslandi, þótt for­eldr­arn­ir fari sam­eig­in­lega með for­sjá þeirra.

Var sá dómsúrskurður kveðinn upp í kjölfar þess að Edda tók ákvörðun um að senda börnin ekki aftur til föður síns eftir að vetrarfríi þeirra hér á landi lauk árið 2019. Meðal ann­ars vegna þess að tann­heilsa barn­anna var mjög slæm, sér­stak­lega drengj­anna. Þá voru stúlk­urn­ar skýr­ar með það að þær vildu ekki fara aft­ur út til föður síns, að sögn Eddu, og hafa þær búið hjá henni síðan.

Umgengni drengjanna við móður sína var hins vegar mjög takmörkuð þar til hún nam þá á brott í mars á síðasta ári, enda hafði faðirinn ekki fallist á aukna umgengni, nema að litlu leyti, sem miðaðist við tvær helgar á ári. Í viðtali við mbl.is á þeim tíma sagðist Edda ekki hafa séð annan kost stöðunni en fara með drengina til Íslands þar sem hún taldi velferð þeirra ógnað. Þá höfðu þeir ekki hitt móður sína í rúmt ár og systurnar í þrjú ár.

Í kæru til Landsréttar kemur fram að systurnar séu í reglulegri sálfræðimeðferð í Barnahúsi og hjá sálfræðingi þar sem þær hafi greint frá ofbeldi af hálfu föður síns. Viðurkenndi hann fyrir héraðsdómi að hafa slegið á brjóst eldri stúlkunnar og misst þolinmæðina gagnvart þeirri yngri þegar hún vildi ekki fara í sturtu. Hann hafi tekið í arm hennar, leitt niður stiga og sett hana í sturtu í öllum fötunum.

Takmörkuð umgengni sé drengjunum þungbær

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu segir að ljóst sé af gögnum málsins að hin takmarkaða umgengni drengjanna við móður og aðra fjölskyldu á Íslandi í langan tíma hafi reynst þeim þungbær. Þá virðist sem faðir hafi látið gremju í garð móður ráða för varðandi óskir hennar um meiri umgengni við drengina. Niðurstaðan var engu að síður sú að Edda skyldi afhenda föðurnum drengina.

Í kæru Eddu til Landsréttar er bent á að niðurstaða héraðsdóms byggist á því að faðirinn hafi í óformlegum sáttaviðræðum fyrir dómi sagst vera tilbúinn að semja um meiri umgengni en 16 klukkustundir á ári. Hann geri sér grein fyrir þörf drengjanna fyrir mun meiri umgengni við móður og ekkert í dómsúrskurði í Noregi kom í veg fyrir að umgengni verði aukin.

Það sé hins vegar nauðsynlegt sé að hnekkja á niðurstöðunni því hún sé bæði í andstöðu við öll gögn og forsögu málsins og það hvernig afstaða föður hafi verið til aukinnar umgengni hingað til.

„Verið sé að senda drengina í mikla hættu með því að fallast á afhendingu þeirra til Noregs því eins og dómkvaddur matsmaður segir, hafa drengirnir orðið fyrir andlegum skaða nú þegar af því tengslarofi sem varð,“ segir í kærunni.

Í kæru til Hæstaréttar segir að nauðsynlegt sé að hnekkja úrskurði Landsréttar enda sé verið að setja alvarlegt fordæmi með því að virða að vettugi vilja drengjanna. Það brjóti gegn barnalögum þar sem kveðið er á er á um að kanna skuli afstöðu og taka tillit til skoðana barna sem hafa náð ákveðnum þroska og aldri. Í úrskurðinum sé hins vegar vikið með alvarlegum hætti af þeirri braut sem hefur verið styrkt í sessi undanfari ár, að gefa skoðunum og afstöðu barna enn meira vægi við ákvarðanir í málum sem þau varða.

„Á að andlega þvinga börnin, á að hóta þeim?“

Var það mat dómkvadds matsmanns að aðskilnaður frá hvoru foreldrinu fyrir sig væri skaðlegur fyrir drengina. Þar var tekið fram að fyrir lægi að skaðlegt væri fyrir barn að fá ekki tækifæri til að rækta samband við hvort foreldrið fyrir sig. Slíkur aðskilnaður og rof á tengslum væri talið geta haft áhrif á andlega heilsu barns í formi kvíða og vanlíðunar.

Edda segir það hins vegar ljóst að fari drengirnir aftur til Noregs þá fái þeir aldrei að hitta hana. „Hann hefur kært mig í Noregi fyrir barnsrán og það er handtökubeiðni á mig þar. Þannig þeir eru bókstaflega aldrei að fara að sjá mig.“

Hún veltir því einnig upp hvernig eigi að framkvæma þá aðgerð fara með drengina gegn vilja sínum til Noregs.

„Hver á að hjálpa honum? Á að halda á börnunum út. Ætlar lögregla og barnavernd virkilega að halda á þessum börnum út úr húsi, halda á þeim inn í flugvél? Þeir eru ekki að fara sjálfir,“ segir Edda.

„Og ef ekki, á að andlega þvinga börnin, á að hóta þeim?“ spyr hún.

Bjuggu hjá móður sinni í Noregi 

Forsaga málsins er sú að fjöl­skyld­an bjó sam­an í Nor­egi um ára­bil og eft­ir að for­eldr­arn­ir skildu árið 2015 fóru þau sam­eig­in­lega með for­sjá barn­anna, sem höfðu lög­heim­ili hjá Eddu. Þegar hún svo vildi flytja til Íslands með börn­in árið 2017 synjaði faðir­inn henni um það. Málið fór því fyr­ir dóm í Nor­egi en sam­kvæmt heim­ild­um mbl.is var Eddu var ráðlagt að flytja heim til Íslands á meðan málið væri til meðferðar til að und­ir­búa heim­ili fyr­ir börn­in. Hún kom hins veg­ar reglu­lega til Nor­egs og eyddi mikl­um tíma með börn­un­um.

Þegar dóm­ur var kveðinn upp hafði það hins veg­ar úr­slita­áhrif á niður­stöðuna að Edda hafði flutt til Íslands. Dóm­ur féll því þannig að lög­heim­ili barn­anna skyldi vera í Nor­egi hjá föður, þrátt fyr­ir að frum­tengsl þeirra við móður væru mun sterk­ari. Börnin áttu hins vegar að vera í reglulegri umgengi við móður og fara til hennar í fríium sem þau gerðu þar til hún hélt þeim eftir í kjölfar vetrarfrís árið 2019, þar sem hún taldi sér ekki stætt að senda þau til baka, líkt og rakið var hér á undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert