Eftirlitsstofnun EFTA ákvað í dag að hefja rannsókn á meintri ríkisaðstoð til Farice og hvort hún sé í samræmi við ríkisaðstoðarreglur samkvæmt tilkynningu frá stofnunni.
Farice býður upp á fjarskiptasamband á milli Íslands og Evrópu. Fyrirtækið undirritaði þjónustusamning við íslenska ríkið í desember 2018 varðandi lagningu á fjarskiptasæstrengnum IRIS milli Íslands og Evrópu.
Samkvæmt samningnum fékk Farice einnig greiðslur fyrir hafsbotnsrannsókn sem framkvæmd var á árunum 2019 til 2021.
Árið 2021 tilkynntu íslensk stjórnvöld ESA fyrirætlanir sínar um að veita Farice ríkisaðstoð vegna lagningar á IRIS fjarskiptastrengnum. Ríkisaðstoðin var í formi hlutafjáraukningar í Farice, þ.e. aukinna fjármagna frá hlutafélögum fyrirtækisins, en fyrirtækið er alfarið í eigu íslenska ríkisins. ESA taldi þá áætlunina um ríkisaðstoð við Farice í samræmi við EES reglugerð.
Niðurstaðan var hins vegar ógilt fyrir EFTA-dómstóli í júní 2022 og var í kjölfarið tekin upp aftur af ESA. Byggt á núverandi upplýsingum telur ESA ástæðu fyrir ítarlegri rannsókn á lögmæti ríkisaðstoðar við Farice, í samræmi við ríkisaðstoðarákvæði EES-samningsins.
ESA telur meðal annars að ekki sé ljóst eins og er hvort jákvæð áhrif ráðstöfunarinnar vegi þyngra en hugsanleg röskun á samkeppni og neikvæð áhrif á viðskipti. Einnig telur ESA að vafi leiki á hvort að um ríkisaðstoð hafi verið að ræða þegar kom að framkvæmd á hafsbotnsrannsókninni, þar sem ekki sé hægt að útiloka ívilnun í garð Farice.
Sú ákvörðun að hefja rannsókn hefur ekki áhrif á endanlega niðurstöðu ESA. En ESA kallar nú eftir athugasemdum og upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum og öðrum aðilum sem telja sig eiga hagsmuna að gæta.