Verið að bregðast við þörf fyrir starfsfólk

Katrín Jakobsdóttir á blaðamannafundi um nýtt kerfi um atvinnuréttindi útlendinga …
Katrín Jakobsdóttir á blaðamannafundi um nýtt kerfi um atvinnuréttindi útlendinga utan EES. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir segir að það hafi verið skýrt í stjórnarsáttmála að til stæði að setja fram tillögur um atvinnuleyfi útlendinga utan EES. Tillögurnar séu nú að raungerast. 

„Niðurstaðan er eftir umfjöllun í ríkisstjórn er sú að við gerum tillögur er snúast um þessa miklu kerfisbreytingu að atvinnuleyfi fylgi einstaklingi en ekki atvinnurekanda. Einnig að breytingar séu gerðar á dvalartíma,“ segir Katrín.

16% á vinnumarkaði eru útlendingar

Hún segir að einnig verði sett af stað vinna um mannaflaspá sem þörf er á fyrir atvinnulífið. „Við vitum að 16% fólks á vinnumarkaði eru útlendingar. Við erum einnig með fólk sem hefur hæfni en á erfitt með að komast inn á íslenskan vinnumarkað," segir Katrín.

Katrín segir að þetta sé tilraun til þess að horfast í augu við það að samfélagið hefur breyst á sama tíma og nýta skuli þau tækifæri sem ástandinu fylgir þannig að samfélagslegur ávinningur verði sem mestur.

Þörf á þúsundum 

Þá segir Katrín að greining Samtaka atvinnulífsins geri ráð fyrir að þörf séu á þúsundum fólks á vinnumarkað svo vel sé.

„Við erum með þessu að mæta þeirri kröfu að leyfin mæti kröfunni um vinnuafl. En við vitum einnig að þetta getur breyst og þess vegna er gott að vera með sveigjanlegt kerfi," segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert