Verkalýðsfélög sameinast um félagakerfi

Fimm verkalýðsfélög hafa sameinast um að nýta stafræna félagakerfið Tótal. …
Fimm verkalýðsfélög hafa sameinast um að nýta stafræna félagakerfið Tótal. Fleiri félög innan ASÍ hafa einnig sýnt kerfinu áhuga. mbl.is/​Hari

AFL Starfsgreinafélag, Efling Stéttarfélag, Aldan Stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands og Verkalýðsfélagið Hlíf hafa skrifað undir samkomulag um félagakerfið Tótal. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá AFL.

Félagakerfið Tótal ehf., sem var áður í fullri eigu AFL, er nú í sameiginlegri eigu allra fimm stéttafélaganna, eftir að fjögur síðarnefndu keyptu hlut í kerfinu.

Hlutafélagið verður rekið sem óhagnaðardrifið félag í framtíðinni – þ.e. að rekstrarkostnaði þess verður deilt niður á notendur félagakerfisins í hlutfalli við notkun hvers og eins.

Verkalýðsfélagið Hlíf hóf notkun á Tótal fyrir um ári en hin þrjú félögin hófu viðræður við AFL síðastliðið haust.  Samhliða því hafa öll fimm félögin gengið frá samningum við Advania um áskrift að bókhaldskerfi, hýsingu og aðrar þjónustur.

Nú er verið að flytja gögn stéttafélaganna Öldunnar og Stéttafélags Vesturlands yfir í Tótal og innleiðing í kerfið hefst á næstu vikum. Enn er verið að vinna að innleiðingu fyrir Eflingar og stefnt er að því að innleiðingu verði að fullu lokið í maí.

Önnur félög innan Alþýðusambands Íslands hafa óskað eftir kynningu á Tótal félagakerfi og eru kynningarfundir áformaðir á næstu vikum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert