Vilja mat á styttingu framhaldsskólanna

Námstími til stúdentsprófs var styttur niður til þriggja ára. LÍS …
Námstími til stúdentsprófs var styttur niður til þriggja ára. LÍS og SÍF krefjast nú mats á þeim áhrifum sem styttingin hefur haft í för með sér. mbl.is/Hákon

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) og Samtök íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) hafa krafist þess að mat verði lagt á þau áhrif sem styttingar á námstíma framhaldsskólans hafa haft. Þetta kemur fram í sameiginlegri ályktun frá samtökunum tvennum til mennta- og barnamálaráðuneytisins og háskóla-. iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.

Í ályktuninni segir að ágæt reynsla sé nú komin af þriggja ára kerfinu og sé því ástæða fyrir því að gera úttekt á áhrifum styttingarinnar.

Rökin sem borin eru fyrir matinu eru þau að styttings námstíma til stúdentsprófa úr fjórum árum í þrjú hafi haft „víðtæk áhrif á íslenskt samfélag, þar á meðal á starfsemi framhaldsskóla, háskóla, líðan ungmenna og íslenskan vinnumarkað.“

Þau vilja því að í matinu sé mið tekið af ofangreindum þáttum meðal annarra. Þar að auki þurfi að meta hvort þau markmið sem stjórnvöld settu fram með breytingunni hafi verið uppfyllt og hvað önnur áhrif styttingin hefur haft á íslenskt samfélag, tómstundaþátttöku ungmenna og vinnumarkað. 

Í ályktuninni er minnst á það að í skýrslu þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra um árangur og áhrif styttingarinnar frá árinu 2020 kemur fram að ráðherra hafi áformað að koma af stað verkefni til fimm ára til þess að leggja mat á það hversu undirbúnir nemendur koma til háskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert