„Það er ekkert lát og við sjáum lítil merki þess ennþá. Það er ennþá mikið um streptókokka og beiðnir um streptókokkapróf, og allar þessir pestir eru bara enn á fullu,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, um stöðuna veikindum í samfélaginu í samtali við mbl.is.
„Við gleymum því oft að mars er pestarmánuður, en við vonum að þetta fari að gefa undan í apríl,“ bætir hún við.
Álagið á heilsugæslunni er mikið og eftirspurnin meiri en starfsfólkið ræður við, að sögn Sigríðar. Löng bið geti því verið eftir tíma hjá lækni og hætt við að fólk leiti skyndilausna og veigri sér jafnvel við að leita til læknis.
Hún segir starfsfólkið alltaf á fullu og þá séu margir að taka út orlof sem ekki var hægt að taka í covid-faraldrinum.
Hún tekur þó fram alltaf sé hægt að komast að hjá lækni með bráð erindi, en fyrirkomulagið sé mismunandi á milli heilsugæslustöðva.
Spurð hvort kerfið sé alveg sprungið í ljósi óvenju mikilla veikinda í samfélaginu, segir hún það ekki meira sprungið en það hefur verið.
„Það allt heilbrigðiskerfið, það er ekki bara hjá okkur, það er gríðarlega mikið álag og eftirspurnin eftir þjónustu meiri en við ráðum við. Alveg sama hvað reynum að beina fólki í réttan farveg. Það er ekki annað hægt en að horfast í augu við það.“
En hvað þýðir það?
„Það er lengri bið eftir þjónustu, það er bara þannig. Fólk leitar meira skyndilausna, kemur í bráðatíma, bíður þangað til erindin eru komin þangað. Það er niðurstaðan.“
Hún telur alveg líklegt að einhverjir veigri sér við að leita á heilsugæsluna vegna þess hve biðin er löng.
„Án efa, ég er alveg viss um að það er eitthvað um að fólk fer ekki af stað af því það heldur að það fái ekki tíma. Og leitar þá kannski á staði þar sem er meira um skyndilausnir og finnur sér sjálft lausnir. Það er eðlilegt þegar það er ekki hægt að komast að.“
Sigríður er ekki viss um að það verði neitt rólegra á heilsugæslunni með vorinu, þegar pestarnar verða á undanhaldi.
„Við erum alltaf að vonast til að það verði rólegra en ég er ekki svo bjartsýn að halda að það sé, en við verðum að halda í vonina. Við getum ekki annað. Það er engin uppgjöf en það er álag.“
Hún segir vissulega farið að bera á þreytu hjá starfsfólkinu en það hafi þó ekki leitt til aukinna veikinda, enn sem komið er. Það geti þó farið að koma upp langtímaveikindi haldi álagið áfram að vera jafn mikið. „Við þurfum að gæta að því,“ segir Sigríður að lokum.