Landsréttur hefur staðfest gæsluvarhaldsúrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra yfir konu sem er m.a. grunuð um margítrekuð þjófnaðarbrot, líkamsárásir og frelsissviptingu. Skal konan sæta varðhaldi til 31. mars.
Fram kemur í úrskurðinum, sem féll á þriðjudag, að um sé að ræða fjölda brota á tímabilinu 13. janúar 2022 til 4. mars 2023. Þar af eru tíu mál til rannsóknar er varða ætluð brot sem munu hafa átt sér stað 3. febrúar til 4. mars 2023.
Sakarefni málanna eru ítrekaðir þjófnaðir, líkamsárásir, nytjastuldur og skjalafals, gripdeild, eignaspjöll, fjársvik, rán, frelsissvipting, fíkniefnalagabrot og ítrekuð umferðarlagabrot.
Til rannsóknar og meðferðar hjá lögreglu og ákæruvaldi eru alls 25 mál, þar af 14 hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra, níu mál hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og tvö mál hjá lögreglustjóranum á Vesturlandi.
Samkvæmt sakavottorði konunnar nær sakaferill hennar aftur til ársins 2012 og hefur hún sex sinnum hlotið refsidóm fyrir svipuð brot og lögregla hefur nú til rannsóknar, síðast með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í maí 2021 þar sem henni var gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um ávana-og fíkniefni.
Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, að það sé mat Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra að ætla megi að konan muni halda áfram brotum gangi hún laus á meðan málum hennar er ekki lokið.
Tekið er fram í skýrslu að konan hafi þurft að yfirgefa íbúð sem hún bjó í eigi seinna en 6. mars. „Óvíst er hvort kærða hafi nokkurn samastað í framhaldinu. Þá kom fram að kærða væri ekki í vinnu þar sem hún væri öryrki og neitaði alfarið að tjá sig um hvort hún væri neyslu ávana og fíkniefna, lyfja eða áfengis.“
Þá segir að rannsókn meginhluta málanna sé langt kominn og þess að vænta að gefa megi út ákæru í hluta þeirra í það minnsta á næstunni.