Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur þekkst boð um að taka þátt í ráðstefnu í Armeníu í október næstkomandi.
Ráðstefnan fjallar um hlutverk kvenna í að efla lýðræðið og stuðla að friði og öryggi.
Félagsmálaráðherra Armeníu, Narek Mkrtchyan, bauð Katrínu á ráðstefnuna á fundi í New York-borg í Bandaríkjunum. Mkrtchyan þakkaði Katrínu jafnframt fyrir stuðning íslenskra fyrirtækja á meðan á átökum stóð í landinu árið 2020 og fyrir samstarfið við íslensk stjórnvöld, að því er fjölmiðillinn Armenpress greindi frá.
Katrín sótti 67. fund Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW67) í New York á dögunum. Yfirskrift fundarins var Nýsköpun og tæknibreytingar og menntun kvenna á stafrænni öld – Í þágu jafnréttis og valdeflingar kvenna.
Uppfært 22. mars kl. 14:55
Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu er ekki rétt sem kemur fram í umfjöllun Armenpress að Katrín muni heimsækja Armeníu til að taka þátt í ofangreindri ráðstefnu. Rétt er að forsætisráðherra hafi fengið boð en Katrín mun þó ekki taka þátt.