Mannfjöldi á Íslandi 1. janúar síðastliðinn var 387.758 og hafði íbúum fjölgað um 11.510 frá 1. janúar 2022, eða um 3,1%.
Það er mesta fjölgun síðan árið 1734 eða eins langt og mannfjöldatölur fyrir Ísland ná, að sögn Hagstofu Íslands. Þess má geta að þá bjuggu rúmlega 43 þúsund manns á landinu.
Alls voru 199.826 karlar, 187.800 konur og 132 kynsegin/annað búsett á landinu í upphafi ársins og fjölgaði körlum um 3,5% árið 2022, konum um 2,6% og kynsegin/annað um 80,8%.
Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 6.651 fleiri 1. janúar síðastliðnum en fyrir ári. Það jafngildir 2,8% fjölgun íbúa á einu ári. Hlutfallsleg fólksfjölgun var mest á Suðurnesjum þar sem fjölgaði um 6,7% á síðasta ári eða 1.941 manns.
Fólki fjölgaði einnig yfir landsmeðaltali á Suðurlandi, eða um 1.368 einstaklinga (4,2%) og á Vesturlandi (3.1%). Minni hlutfallsleg fólksfjölgun var á Vestfjörðum (2,4%), Norðurlandi eystra (2,0%) og Austurlandi (1,8%). Minnst fjölgun var á Norðurlandi vestra en þar fjölgaði einungis um 27 einstaklinga, eða 0,4%.
Sveitarfélög á Íslandi voru 64 talsins þann 1. janúar 2023 og hafði þeim fækkað um fimm frá fyrra ári. Reykjavík var fjölmennasta sveitarfélagið með 139.875 íbúa en Árneshreppur á Ströndum það fámennasta með 47 íbúa. Alls höfðu 29 sveitarfélög færri en 1.000 íbúa en í ellefu sveitarfélögum voru 5.000 íbúar eða fleiri.
Árið 2022 fækkaði íbúum í 8 af 64 sveitarfélögum landsins og var fækkunin hlutfallslega mest í Fljótsdalshreppi (6,8%). Af ellefu stærstu sveitarfélögunum, með 5.000 íbúa eða fleiri, fjölgaði hlutfallslega mest í Reykjanesbæ (8,0%), Sveitarfélaginu Árborg (3,7%) og í Mosfellsbæ og Reykjavíkurborg sem héldu í við fólksfjölgun á landsvísu (3,1%).
Af 11 stærstu sveitarfélögunum fjölgaði minnst í Fjarðabyggð (1,1%).