„Miklu meira en flugvallarborg“

Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, kynnti áformin.
Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco, kynnti áformin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það gætu verið stór fjárfestingarverkefni handan við hornið,“ segir Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco.

„Við finnum fyrir miklum áhuga og nú munum við kynna verkefnið fyrir alþjóðlegum fjárfestum en innlendir fjárfestar hafa verið að banka á dyrnar hjá okkur sömuleiðis,“ segir hann.

K64, þró­un­ar­áætl­un Kadeco um heild­stæða sýn á upp­bygg­ingu í kring­um Kefla­vík­ur­flug­völl var kynnt í dag við hátíðlega athöfn en hún nær til árs­ins 2050. Gert er ráð fyr­ir um 134 millj­örðum króna til upp­bygg­ing­arinnar á þeim tíma.

Pálmi segir fjárfestinguna dreifast á þennan tíma en að um leið og umheimurinn verði látinn vita af svæðinu og tækifærunum þá geti hlutirnir gerst hratt.

„Við sjáum fyrir okkur að um leið og fyrstu aðilarnir koma á svæðið þá muni athyglin aukist um leið. Það eru komnir fjárfestar inn í kerskálana í Helguvík. Svo auðvitað verða opinberir innviðir sem sveitarfélögin og ríkið þarf að tryggja. Við sjáum fyrir okkur að það komi fjármunir inn með tekjum af fyrirtækjunum og með fleiri íbúum koma auknar skatttekjur bæði til ríkis og sveitarfélaga.“

Fengu tvo milljarða króna

Þróunarverkefnið var skilgreint til fimm ára og Kadeco fékk tvo milljarða króna í verkefnið af sölu eigna sem Bandaríkin afhentu Íslandi við brottför varnarliðsins. Fram hefur farið greiningarvinna og alþjóðlegt útboð ásamt ráðningu hönnuða og hagfræðinga. Þeirri vinnu er lokið en framundan er vinna við markaðssetningu á svæðinu til næstu tveggja ára.

Áætlunin er til ársins 2050 eða til nærri þriggja áratuga, má gera ráð fyrir að þessi langi tímarammi standist?

„Já, það er erfitt að segja. Þessi áform eru þau sem við mátum fram að árinu 2050. Eftir það tekur við endalaus uppbygging og í sjálfu sér gætum við hafa sett upp áætlun til ársins 2100 en þá værum við að vinna með stærri tölur. Miðað við það sem tengist farþegafluginu og spám flugvallarins og eðlilegum íbúavexti á svæðinu þá eru þetta tölur sem við sjáum fyrir okkur,“ segir Pálmi og heldur áfram.

„Isavia hefur ótrúlega metnaðarfullar áætlanir um stækkun flugstöðvarinnar og þar er búið að skilgreina svæði undir hótel, bílaleigur, bílastæðahús og fleira. Við munum hjálpa þeim að tefla þeim tækifærum fram og sýna þau fjárfestum.“

Mik­il upp­bygg­ing mun eiga sér stað á svæðinu í kring­um …
Mik­il upp­bygg­ing mun eiga sér stað á svæðinu í kring­um Kefla­vík­ur­flug­völl á næstu árum og ára­tug­um. Tölvuteikning/Kadeco

Nærri tvöföldun á fjölda farþega

Isavia spáir því að farþegar um Keflavíkurflugvöll verði um 14 milljónir árið 2040 samanborið við rúmar 7 milljónir árið 2019 og 90 þúsund tonn verði flutt af farmi um flugvöllinn samanborið við um 55 þúsund tonn árið 2019.

Pálmi segir að loks sé verkefnið orðið áþreifanlegt.

„Nú erum við með eitthvað í höndunum. Eitthvað til að kynna verkefnið og hver tækifærin eru á svæðinu. Það er búið að vera að tala um einhvers konar „airport city“ eða nálægð flugvallar og hafnar. Í langan tíma hefur því verið haldið á lofti að hér séu gríðarstór tækifæri en þetta hefur aldrei verið teiknað upp fyrr en nú. Nú getum við sýnt nákvæmlega fram á hvað á að vera hvar og á sama tíma geta samfélögin búið sig undir það þegar þessi áform ná fram að ganga.“

Hann segir nærsamfélagið geta verið enn stoltara af því að búa á þessu svæði.

„Við höfum fengið alþjóðlega sérfræðinga til að benda okkur enn frekar á það hversu ótrúleg tækifæri eru á svæðinu og hversu lánsöm við erum að búa hérna.

Þróunaráætlunin var unnin í afar umfangsmiklu samráði með hagaðilum á svæðinu og víðar sem skilar afurð sem er í takti við væntingar samfélagsins. Þetta er metnaðarfull áætlun og aðlaðandi framtíðarsýn.”

Um er að ræða gríðar­stórt þró­un­ar­svæði sem tel­ur yfir 400 …
Um er að ræða gríðar­stórt þró­un­ar­svæði sem tel­ur yfir 400 þúsund fer­metra af landi. Tölvuteikning/Kadeco

Gáttin til Íslands

Nýr viðskiptakjarni verður til samkvæmt þróunaráætluninni, sem verður staðsettur við Aðaltorg. Í þróunaráætluninni er talað um það svæði sem gáttina til Íslands.

„Þessi gátt til Íslands nær alveg frá flugstöðinni og fram hjá Aðaltorgi. Sá kjarni er að verða miklu strategískari og uppbyggingin þar og tengingin fyrir samfélagið hérna verður inn á þann punkt fremur en að allir séu dregnir til dæmis upp í flugstöð.

Þannig erum við komin með miklu aðgengilegri kjarna fyrir allt Reykjanesið og fólk sem býr bæði í Reykjanesbæ og í sveitarfélögunum í kring. Þar verður hægt að þróa mjög spennandi svæði þar sem hægt er að vera með skrifstofur og hótel. Við sjáum fyrir okkur mannlíf og menningu sem ferðamaðurinn mun sækja í að auki eins og er við flugstöðvar allt í kringum okkur.“

Þannig segir Pálmi að það sé ekki verið að setja alla þróun niður við flugstöðina heldur sé einbeitingin á öðru svæði sem einnig tengir byggðirnar.

„Við erum að koma að hugsuninni frá okkar ráðgjöfum um það hvernig svona byggð eigi að þróast. Að ásýndin verði ekki endilega bara bílastæði. Að við náum að byggja upp aðlaðandi svæði fyrir fólk og fyrirtæki sem vilja koma hérna.“

Gert er ráð fyrir tengingu við almenningssamgöngur og fyrir umferð á hjólum beint frá flugstöð og út á Reykjanesbraut að sögn Pálma.

„Þar væri stoppistöð fyrir fólk sem býr til dæmis í Reykjanesbæ eða Suðurnesjabæ og vinnur þarna eða í flugstöðinni. Þá þarf til að mynda ekki að eyða verðmætum svæðum undir bílastæði fyrir starfsfólk.“

Sórbættar samgöngur við Reykjavík og nærliggjandi bæji.
Sórbættar samgöngur við Reykjavík og nærliggjandi bæji. Tölvuteikning/Kadeco

„Hlökkum til að takast á við verkefnið“

Pálmi segir að margir þurfi að leggjast saman á árarnar til að þessi sýn geti orðið að veruleika.

„Ég er sannfærður um að afraksturinn sé þess virði og vel það. Við hjá Kadeco og K64 hlökkum til að takast á við verkefni framtíðarinnar með fólkinu á Suðurnesjum.

Þetta er meira en bara Keflavíkurflugvallarsvæðið. Þetta er höfnin og byggðin hérna. Þetta er nálægðin við höfuðborgarsvæðið og er miklu meira en flugvallarborg.“

Kort af svæðinu eins og það kem­ur til með að …
Kort af svæðinu eins og það kem­ur til með að líta út. Tölvuteikning/Kadeco
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert