Rær meðfram Skandinavíu og býr til heimildaþætti

Veiga Grétarsdóttir
Veiga Grétarsdóttir mbl.is/RAX

Kaj­akræðar­inn Veiga Grétarsdóttir leggur af stað í ævintýri í Skandinavíu innan skamms. Veiga hyggst róa meðfram Noregi, Svíþjóð og Finnlands til að vekja athygli á umhverfismálum tengdum hafinu, segir hún í samtali við mbl.is. 

Veiga segir ævintýrið lengi hafa verið á prjónunum, eða í um þrjú ár, en hún þurfti að fresta áformunum tvisvar, eitt sinn vegna Covid-19 faraldursins og í seinna skiptið vegna fjárskorts.

Veiga varð landsþekkt árið 2019 þegar hún reri rangsælis í kringum Ísland á kajak og safnaði þannig áheitum fyrir Píeta-samtökin, en heimildamyndin „Á móti straumnum” var gerð um afrekið.   

Ferðalagið rangsælis um landið tók um þrjá mánuði en Veiga áætlar að ferðalagið um Skandinavíu muni taka allt að þrjú ár.  

Einn fjörður getur lengt ferðina um 200 kílómetra 

Hún hyggst þvera firði Noregs í sumar og segir stystu leið meðfram ströndum landsins vera um 3.000 kílómetra. Það er alveg nógu langt” segir hún glettnislega bara einn fjörður getur lengt ferðina um 200 kílómetra” en Noregur státar sumum stærstu fjörðum heims. 

Þá hefur hún enn ekki ákveðið hvort hún taki Svíþjóðar- og Finnlandsstrendur í einum rykk næsta sumar eða skipti ferðalaginu upp yfir tvö sumur. Í sumar reri hún hálft Ísland aftur og tók upp fyrsta þátt af fjórum heimildaþáttum, sem hún er með í bígerð.  

Strandlengjur Íslands fullar af rusli 

Veiga segir hugmyndina að Skandinavíuferðinni hafa kviknað strax í Íslandsferðinni 2019, þegar hún tók eftir því að strandlengjur Íslands væru fullar af rusli, og nefnir sem dæmi Suðurströnd, Langanes, Hornstrandir og Melrakkasléttu. Hún setti sig í kjölfarið í samband við Hrafnhildi Gunnarsdóttur kvikmyndaframleiðanda og vinna þær nú saman að þáttunum til að vekja athygli á mengun sem steðjar að hafinu. 

Hrafnhildur hefur elt Veigu að hluta til og þær hafa sett sig í samband við norskan framleiðanda til að vinna með í Noregsferðinni. Veiga mun einnig að hluta til taka upp efni sjálf og hafa æfingarnar fyrir ferðalagið því ekki einungis beinst að róðri heldur hefur hún líka lært á kvikmyndagræjur.  

Veiga Grétarsdóttir
Veiga Grétarsdóttir

Finnst fólk mega líta í eigin barm. 

Veiga segir að henni líði vel í kajakferðunum og að lífið sem því fylgi eigi vel við sig. Allt frá ferðinni 2019 hefur hana langað til að takast á við stærra verkefni þar sem hún fengi að vekja athygli á stærri málstað samhliða róðrinum.  

„Mér finnst fólk mega fara að líta í eigin barm varðandi hvernig við umgöngumst jörðina okkar“ segir Veiga. Hún segir sumar strandlengjur sem urðu á vegi hennar í kajakferðalaginu alveg skelfilegar og vonar að fólk taki boðskapinn til sín í kjölfar þáttanna. Hún kveðst einnig vera gagnrýnin á sjókvíeldi og þá mengun sem stafar af því.  

Styrkir dregnir til baka vegna skoðana á sjókvíeldi 

Mikill undirbúningur er fyrir ferðina en Veiga segir 90 prósent af þeirri vinnu vera fjármögnun. Upprunalega átti ferðin að vera styrkt af fyrirtækjum en Veiga segir þau hafa dregið sig til baka vegna skoðana hennar á sjókvíeldi.  

Hún fjármagnar nú ferðalagið sjálf með sölu og fyrirlestrum, meðal annars um líf sitt og upplifanir sem transkonu. Hún kveðst þó ótrúlega heppin með nokkra styrktaraðila sem veiti henni allan búnað fyrir ferðina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert