Rétt eftir miðnætti voru kvikmyndatökumenn við tökur í Hafnafjarðarhöfn þegar taumur losnaði af gínu sem rak um höfnina.
Kvikmyndatökumönnunum tókst ekki að fjarlægja gínuna og því óskuðu þeir eftir aðstoð lögreglu. Þegar lögreglan kom á vettvang var slökkvilið ræst út sem fjarlægði gínuna úr sjónum og henni komið fyrir á bakkanum þar til gínan var sótt af tökuliði, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu fóru tveir menn út í flotgöllum og sóttu gínuna. Tók verkefnið skamma stund.
Rétt fyrir miðnætti barst tilkynning um innbrot í fyrirtæki í miðbæ Reykjavíkur. Greinilegar skemmdir voru á hurðakarmi. Húsasmiður var fenginn á vettvang til þess að hægt væri að loka hurðinni.
Tilkynnt var um ölvaðan mann sem var gangandi vegfarendum til ama í Reykjavík. Lögreglan fór á vettvang og gaf sig á tal við hann. Niðurstaða málsins var sú að maðurinn skyldi koma sér heim í háttinn þar sem ekki voru neinar kröfur gerðar og hann orðinn pollrólegur.
Lögreglan kannaði með ástand og réttindi ökumanns í hverfi 220 í Hafnarfirði þar sem ökuljós voru ekki tendruð á bifreið hans. Ökumaðurinn reyndist réttindalaus en einnig undir áhrifum ávana- og fíkniefna þar sem hann lét í té munnvatnssýni á vettvangi. Ökumaðurinn var handtekinn og lögreglumenn framkvæmdu öryggisleit. Við hana fundust meint fíkniefni. Ökumaðurinn er því grunaður um vörslu fíkniefna. Hann var fluttur á lögreglustöð þar sem vakthafandi hjúkrunarfræðingur dró úr honum blóð.