Spennandi að sjá hvernig tækifærin verða gripin

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á kynningarfundi Kadeco í dag.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á kynningarfundi Kadeco í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ótrú­lega spenn­andi að sjá hvað gert hef­ur verið með þessa djörfu og fram­sæknu hug­mynd.“

Þetta seg­ir Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, um K64, þró­un­ar­áætl­un Kadeco, Þró­un­ar­fé­lags Kefla­vík­ur­flug­vall­ar, sem kynnt var við hátíðlega at­höfn á Ásbrú í dag. Kynnt var heild­stæð sýn á upp­bygg­ingu í kring­um Kefla­vík­ur­flug­völl.

Hrós­ar heima­mönn­um fyr­ir fram­sýni og djörf­ung

„Það er ekki á hverj­um degi sem ríkið tek­ur ákvörðun um að fara í sam­starf með sveit­ar­fé­lög­um og öðrum hag­höf­um, eins og í þessu til­viki Isa­via, í þeim til­gangi að setja af stað svona þró­un­ar­vinnu eins og gert var í þessu til­viki,“ seg­ir Bjarni.

„For­saga þess var að við höfðum þetta fé­lag sem hafði fengið það hlut­verk að losa um eign­ir sem féllu til ís­lenska rík­is­ins við brott­hvarf Banda­ríkja­hers. Þegar því verk­efni var lokið þá var þarna laust fé og ég ætla að segja heima­mönn­um það til hróss að þeir voru nægi­lega fram­sýn­ir og djarf­ir að leggja það til að við mynd­um nota hluta af þess­um pen­ing­um til þess að fara í þetta verk­efni, meðal ann­ars vegna þess að brott­hvarf hers­ins skapaði sam­fé­lag­inu nýj­ar áskor­an­ir.“

Bjarni seg­ist hafa tekið vel í til­lögu heima­manna strax í upp­hafi.

„Ég sá fyr­ir mér að það myndi kalla á sam­starf við lyk­ilsveit­ar­fé­lög­in Reykja­nes­bæ og Suður­nesja­bæ en Isa­via hef­ur sömu­leiðis verið þátt­tak­andi í þessu.“

Spenn­andi hug­mynd­ir sem snúa að lífs­gæðum íbúa

Bjarni hef­ur vænt­ing­ar til þess að á þess­um grund­velli verði tekn­ar mark­viss­ari ákv­arðanir í skipu­lags­legu sam­hengi um það hvar áhersl­ur verði fyr­ir íbúðabyggð, hvar áhersl­ur verði fyr­ir græn iðnaðarsvæði og með hvaða hætti menn sjá fyr­ir sér að það muni gagn­ast sam­fé­lag­inu í heild að byggja upp at­vinnu­starf­semi sem treyst­ir á sam­göng­ur vegna flug­vall­ar­ins eða hafn­ar­svæðið í Helgu­vík.

„Það eru spenn­andi hug­mynd­ir kynnt­ar sem snúa beint að lífs­gæðum íbú­anna á svæðinu og með hvaða hætti ákv­arðanir væru best tekn­ar í skipu­lags­legu til­liti til að auka lífs­gæði íbú­anna á svæðinu.

Menn nefna þetta „Master Plan“ og ég held að fyr­ir sam­fé­lagið í heild þá muni losna hér úr læðingi tæki­færi sem ella hefðu geta farið for­görðum,“ seg­ir Bjarni og held­ur áfram.

„Þess vegna verður mjög spenn­andi að sjá hvernig menn muni grípa þau tæki­færi sem búið er að teikna upp hérna.“

Framtíðin ræðst á markaðssetn­ing­unni

Þró­un­ar­verk­efnið var skil­greint til fimm ára og Kadeco fékk tvo millj­arða króna í verk­efnið af sölu eigna sem Banda­rík­in af­hentu Íslandi við brott­för varn­ar­liðsins.

„Við lögðum hluta af þeim pen­ing­um, sem losaðir voru hér á svæðinu, til fé­lags­ins í þessa þró­un­ar­vinnu. Það er í sjálfu sér það sem mun kosta minnst þegar upp er staðið.

Framtíðin ræðst mjög að því hvernig geng­ur að markaðssetja svæðið bæði inn­an­lands og gagn­vart er­lend­um fjár­fest­um sem myndu hafa áhuga á því að byggja upp hvers kyns at­vinnu­starf­semi sem fell­ur að þeirri hug­mynda­fræði sem búið er að teikna hér upp.

Ég hef vænt­ing­ar um að hér verði veru­leg fjár­fest­ing á kom­andi árum og ára­tug­um sem bygg­ir á því að það hafi verið búið að leggja grunn að skipu­lagi fyr­ir svæðið í heild.“

Mun ríkið koma með frek­ara fjár­magn að verk­efn­inu í framtíðinni?

„Við höf­um ekki lagt það þannig upp að ríkið komi með frek­ara fjár­magn að verk­efn­inu. Okk­ar þátt­ur var skuld­bind­ing­in að nýta fé­lagið og fjár­magna fé­lagið í þess­um til­gangi og ég er mjög ánægður að sjá hver út­kom­an hef­ur orðið,“ seg­ir Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert