Spennandi að sjá hvernig tækifærin verða gripin

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á kynningarfundi Kadeco í dag.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á kynningarfundi Kadeco í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ótrúlega spennandi að sjá hvað gert hefur verið með þessa djörfu og framsæknu hugmynd.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um K64, þró­un­ar­áætl­un Kadeco, Þró­un­ar­fé­lags Kefla­vík­ur­flug­vall­ar, sem kynnt var við hátíðlega athöfn á Ásbrú í dag. Kynnt var heild­stæð sýn á upp­bygg­ingu í kring­um Kefla­vík­ur­flug­völl.

Hrósar heimamönnum fyrir framsýni og djörfung

„Það er ekki á hverjum degi sem ríkið tekur ákvörðun um að fara í samstarf með sveitarfélögum og öðrum haghöfum, eins og í þessu tilviki Isavia, í þeim tilgangi að setja af stað svona þróunarvinnu eins og gert var í þessu tilviki,“ segir Bjarni.

„Forsaga þess var að við höfðum þetta félag sem hafði fengið það hlutverk að losa um eignir sem féllu til íslenska ríkisins við brotthvarf Bandaríkjahers. Þegar því verkefni var lokið þá var þarna laust fé og ég ætla að segja heimamönnum það til hróss að þeir voru nægilega framsýnir og djarfir að leggja það til að við myndum nota hluta af þessum peningum til þess að fara í þetta verkefni, meðal annars vegna þess að brotthvarf hersins skapaði samfélaginu nýjar áskoranir.“

Bjarni segist hafa tekið vel í tillögu heimamanna strax í upphafi.

„Ég sá fyrir mér að það myndi kalla á samstarf við lykilsveitarfélögin Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ en Isavia hefur sömuleiðis verið þátttakandi í þessu.“

Spennandi hugmyndir sem snúa að lífsgæðum íbúa

Bjarni hefur væntingar til þess að á þessum grundvelli verði teknar markvissari ákvarðanir í skipulagslegu samhengi um það hvar áherslur verði fyrir íbúðabyggð, hvar áherslur verði fyrir græn iðnaðarsvæði og með hvaða hætti menn sjá fyrir sér að það muni gagnast samfélaginu í heild að byggja upp atvinnustarfsemi sem treystir á samgöngur vegna flugvallarins eða hafnarsvæðið í Helguvík.

„Það eru spennandi hugmyndir kynntar sem snúa beint að lífsgæðum íbúanna á svæðinu og með hvaða hætti ákvarðanir væru best teknar í skipulagslegu tilliti til að auka lífsgæði íbúanna á svæðinu.

Menn nefna þetta „Master Plan“ og ég held að fyrir samfélagið í heild þá muni losna hér úr læðingi tækifæri sem ella hefðu geta farið forgörðum,“ segir Bjarni og heldur áfram.

„Þess vegna verður mjög spennandi að sjá hvernig menn muni grípa þau tækifæri sem búið er að teikna upp hérna.“

Framtíðin ræðst á markaðssetningunni

Þró­un­ar­verk­efnið var skil­greint til fimm ára og Kadeco fékk tvo millj­arða króna í verk­efnið af sölu eigna sem Banda­rík­in af­hentu Íslandi við brott­för varn­ar­liðsins.

„Við lögðum hluta af þeim peningum, sem losaðir voru hér á svæðinu, til félagsins í þessa þróunarvinnu. Það er í sjálfu sér það sem mun kosta minnst þegar upp er staðið.

Framtíðin ræðst mjög að því hvernig gengur að markaðssetja svæðið bæði innanlands og gagnvart erlendum fjárfestum sem myndu hafa áhuga á því að byggja upp hvers kyns atvinnustarfsemi sem fellur að þeirri hugmyndafræði sem búið er að teikna hér upp.

Ég hef væntingar um að hér verði veruleg fjárfesting á komandi árum og áratugum sem byggir á því að það hafi verið búið að leggja grunn að skipulagi fyrir svæðið í heild.“

Mun ríkið koma með frekara fjármagn að verkefninu í framtíðinni?

„Við höfum ekki lagt það þannig upp að ríkið komi með frekara fjármagn að verkefninu. Okkar þáttur var skuldbindingin að nýta félagið og fjármagna félagið í þessum tilgangi og ég er mjög ánægður að sjá hver útkoman hefur orðið,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert