Ekki var farið að reglugerð sem snýr að vörnum gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins við innflutning á um 185 tonnum af úkraínsku kjúklingakjöti hingað til lands.
Þrjú fyrirtæki flutti kjötið inn frá september í fyrra þangað til í febrúar síðastliðnum, að því er Bændablaðið greinir frá. Þau eru Esja gæðafæri, Kjötmarkaðurinn og Ó. Johnson og Kaaber.
Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun var innflutningsleyfis ekki aflað, auk þess sem sendingar voru ekki tilkynntar til stofnunarinnar varðandi innflutning á kjúklingakjöti frá Úkraínu frá september í fyrra til janúar á þessu ári. Afla skal leyfa áður en varan er send frá útflutningslandi.
„Þar sem ekki hafði verið sótt um leyfi til Matvælastofnunar fyrir umræddar sendingar hafði áhættumat ekki verið framkvæmt þegar þær voru fluttar til landsins,“ segir Hrund Hólm, deildarstjóri inn og útflutningsdeildar MAST, í svari við fyrirspurn Bændablaðsins.
Matvælastofnun er með innflutninginn til skoðunar. Brot á ákvæðum reglugerðar nr. 1250/2019 geta varðað sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.