Bubbi Morthens segir að minnkandi bóklestur sé vandamál, enda gefi bækur dýpri og meir sýn á lífið en það sem við sjálum á skjá; bækur gefi aðgang að tilfinningunum, ekki bara köldu staðreyndum eða lýsingum, heldur lifir lesandinn atburðinn. „Þetta er eitthvað sem sími eða Netflix getur ekki boðið upp á og það er galdurinn við bókina; bækur eru plánetur, sem við komumst á og búum á og verða partur af okkur,“ segir Bubbi og tekur undir það að þeir sem lesi mikið finni þar lykilinn að því að skilja aðra. „Ég er á því og fyrir stuttu uppgötvaði ég til dæmis að Hermann og Dídí eftir Guðberg Bergsson væri einskonar fyrirrennari Ísbjarnarblús.
„Þegar ég er að semja og skrifa hef ég aðgang að gnægtaborði. Ég upplifi það aldrei að allir aðrir séu svo brjálæðislega góðir en ég tæpur. Ég hugsa bara: ég er með nammibarinn og get tínt til allt sem mig langar.“
„Ég gerði tilraun á yngstu dóttur minni þegar hún var vart mælandi og kenndi henni vísur Skáld-Rósu. Henni fannst eins og aðalmálið væri að segja ljóðið nógu hratt: þóaðkaliheitanhverhyljidalijökullbersteinartaliogallthvaðer – sama þó ég reyndi að segja henni að það ætti að segja línurnar mjög hægt, að leyfa þeim að setjast.
Svo liðu árin og svo var ég með henni í bílnum um daginn og þá byrjaði ég: Augað mitt og augað þitt og þá fór hún í gang og þuldi framhaldið. Svo fór ég yfir ljóðið með henni, ræddi við hana hvað hver lína þýddi og fann þá hvað það skiptir miklu máli að koma þessum lyklum í hendurnar á börnunum mínum, vegna þess að við sem lesum erum pinkulítið að verða jaðarsett, við erum deyjandi tegund.“