Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 137 þúsund í febrúar samkvæmt talningu Ferðamálastofu.
Brottfarirnar eru álíka margar og í febrúar árið 2020 og um 86% af því sem þær voru í febrúar 2018, eða þegar mest var, að því er segir í tilkynningu frá Ferðamálastofu.
Flestar brottfarir í febrúar voru tilkomnar vegna Breta, eða 39 þúsund talsins (28,7% af heild). Bandaríkjamenn voru í öðru sæti en brottfarir þeirra mældust tæplega 21 þúsund, eða 15,1% af heild.
Bretar og Bandaríkjamenn hafa verið fjölmennastir í febrúarmánuði síðustu tvo áratugi eða frá því mælingar Ferðamálastofu hófust, með örfáum undantekningum.
Brottfarir Íslendinga voru um 39 þúsund í febrúar, sem er álíka fjöldi og á sama tímabili árin 2018 og 2019.