Vænst er að endurbótum á Skálholtsdómkirkju ljúki endanlega þegar líða tekur á aprílmánuð. Í ársbyrjun var kirkjuskipið sjálft rýmt, allt laust þar tekið út og sett í geymslu. Veggir voru sparslaðir og málaðir og að hluta til í nýjum litum, lagnakerfi og ofnar endurnýjuð, lýsing endurhönnuð, nýr rafbúnaður settur upp og svo mætti áfram telja.
Verktakarnir Múr og mál eru í aðalhlutverki í verkefni þessu, sem kemur í framhaldi af endurbótum á ytra byrði kirkjunnar í fyrra sem þeir höfðu einnig með höndum. „Að taka kirkjuna í gegn að innan er mikilvæg framkvæmd sem lengi hefur verið á dagskrá. Upphaflega stóð til að ljúka verkinu fyrir páska sem sennilega tefst þó um nokkrar vikur,“ segir sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu 9. mars 2023.