„Allt er gott sem endar vel,“ segir Helgi Gunnarsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um atvikið við Arnarnesvog í Garðabæ í gærkvöldi þegar óttast var að maður úti á skeri hefði farið í sjóinn.
Eftir að mikill viðbúnaður fór í gang með aðkomu Landhelgisgæslunnar, sérsveitar ríkislögreglustjóra og kafarahóps slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, kom í ljós að maðurinn var staddur úti á skerinu til að taka ljósmyndir af ísnum sem þar hafði myndast.
„Fólk er eðlilega hrætt út af því sem er búið að gerast og tilkynnir eðlilega um skrítnar mannaferðir,“ segir Helgi, sem á þar við leit að karlmanni að undanförnu í nágrenni Álftaness.
„Það er mjög eðlilegt að hringja, bara mjög gott,“ bætir hann við.
Ofantaldir viðbragðsaðilar voru ekki komnir á staðinn þegar útkallið var afturkallað, þar með talin þyrla Gæslunnar, að sögn Helga.