Tilkynnt var um mann sem kraup á skeri rétt við strandlengju í hverfi 210 í Garðabæ. Lögreglan fór á vettvang á forgangi og ræddi við sjónarvotta. Þeir tjáðu viðbragðsaðilum að maðurinn hefði staðið á skerinu, beygt sig niður og síðan horfið.
Lögreglumenn sáu skóför í snjó sem lá milli strandar og skers en engin spor sem bentu til þess að maðurinn hefði gengið til baka frá skerinu. Lögreglumenn á vettvangi mátu aðstæður sem slíkar að kalla þyrfti út þyrlu Landhelgisgæslunnar en einnig aðstoð frá sérsveit ríkislögreglustjóra og kafarahóp slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu gerðist þetta um hálfáttaleytið í gærkvöldi við Arnarnesvog, skammt frá Sjálandshverfi. Slökkviliðið fékk tilkynningu um að maður væri mögulega í sjónum.
Stuttu eftir að lögreglumenn óskuðu eftir frekari aðstoð rákust þeir á mann á rölti við ströndina sem reyndist vera sá sem leitað var að. Hann kvaðst aldrei hafa farið í sjóinn en viðurkenndi að hafa farið út á skerið, kropið og tekið ljósmyndir af ísnum sem hafði myndast á skerinu. Lögreglumenn afturkölluðu aðstoð frá Gæslunni, sérsveitinni og slökkviliðinu, en þá var verið að sjósetja báta til að leita að manninum.
Íbúi í hverfi 108 í Reykjavík óskaði eftir aðstoð lögreglu eftir að grunsamleg manneskja barði á dyr og glugga. Lögreglan fór á vettvang og ræddi við húsráðanda sem tók á móti lögreglumönnum í miklu uppnámi, með stóran og beittan hníf í hendi.
Húsráðanda var tjáð að hafa samband við lögreglu ef manneskjan kæmi aftur en í kjölfarið óku lögreglumenn um hverfið í leit að einhverjum sem passaði við lýsinguna frá húsráðanda. Sá fannst ekki og ekki bárust frekari tilkynningar til lögreglu um þessar grunsamlegu mannaferðir.
Hótelstarfsmaður óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna rúðubrots í miðbæ Reykjavíkur. Fram kom í tilkynningu að gerendurnir væru enn á vettvangi og mjög ölvaðir. Lögreglan fór á staðinn og gaf sig á tal við meinta gerendur. Annar þeirra var í annarlegu ástandi og kannaðist ekkert við rúðubrotið. Þegar lögreglumenn ætluðu að ræða við hinn aðilann byrjaði hann á því að hlaupa undan lögreglu sem gekk illa sökum ástands og var hann fljótlega handsamaður. Sá kannaðist ekkert við það að hafa sparkað í rúðu og þvertók fyrir það að hafa valdið rúðubrotinu. Að viðræðum loknum voru báðir látnir lausir úr haldi lögreglu.
Tilkynnt var um umferðarslys í hverfi 220 í Hafnarfirði og var tekið fram að tveir væru lemstraðir en þó með meðvitund. Lögreglan var send á vettvang á forgangi. Hún gaf sig á tal við annan ökumanninn sem viðurkenndi að hafa notað farsíma sinn við akstur og ekki verið í öryggisbelti. Ökumanninum var tilkynnt að hann væri handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna ásamt réttarstöðu sakbornings. Ökumaðurinn reyndist einnig vera ökuréttindalaus. Ökumaður og farþegi í hinni bifreiðinni voru báðir í öryggisbeltum og fundu til eymsla eftir áreksturinn.
Lögreglumenn urðu vitni að því þegar bifreið var bakkað inn götu þar sem innakstur er bannaður í miðbæ Reykjavíkur. Ökumaðurinn yfirgaf bifreiðina vegna ágreinings við tvo aðra menn. Lögreglan gaf sig á tal við mennina og kom þá í ljós að ökumaðurinn reyndist vera einn af gerendum í meintu rúðubroti. Hann var því handtekinn, einnig grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.