Hvarf eftir að hafa sést úti á skeri

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til­kynnt var um mann sem kraup á skeri rétt við strand­lengju í hverfi 210 í Garðabæ. Lög­regl­an fór á vett­vang á for­gangi og ræddi við sjón­ar­votta. Þeir tjáðu viðbragðsaðilum að maður­inn hefði staðið á sker­inu, beygt sig niður og síðan horfið.

Lög­reglu­menn sáu skóför í snjó sem lá milli strand­ar og skers en eng­in spor sem bentu til þess að maður­inn hefði gengið til baka frá sker­inu. Lög­reglu­menn á vett­vangi mátu aðstæður sem slík­ar að kalla þyrfti út þyrlu Land­helg­is­gæsl­unn­ar en einnig aðstoð frá sér­sveit rík­is­lög­reglu­stjóra og kafara­hóp slökkviliðsins á höfuðborg­ar­svæðinu, að því er kem­ur fram í dag­bók lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.

Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborg­ar­svæðinu gerðist þetta um hálf­átta­leytið í gær­kvöldi við Arn­ar­nes­vog, skammt frá Sjá­lands­hverfi. Slökkviliðið fékk til­kynn­ingu um að maður væri mögu­lega í sjón­um. 

Stuttu eft­ir að lög­reglu­menn óskuðu eft­ir frek­ari aðstoð rák­ust þeir á mann á rölti við strönd­ina sem reynd­ist vera sá sem leitað var að. Hann kvaðst aldrei hafa farið í sjó­inn en viður­kenndi að hafa farið út á skerið, kropið og tekið ljós­mynd­ir af ísn­um sem hafði mynd­ast á sker­inu. Lög­reglu­menn aft­ur­kölluðu aðstoð frá Gæsl­unni, sér­sveit­inni og slökkviliðinu, en þá var verið að sjó­setja báta til að leita að mann­in­um. 

Með stór­an og beitt­an hníf

Íbúi í hverfi 108 í Reykja­vík óskaði eft­ir aðstoð lög­reglu eft­ir að grun­sam­leg mann­eskja barði á dyr og glugga. Lög­regl­an fór á vett­vang og ræddi við hús­ráðanda sem tók á móti lög­reglu­mönn­um í miklu upp­námi, með stór­an og beitt­an hníf í hendi.

Hús­ráðanda var tjáð að hafa sam­band við lög­reglu ef mann­eskj­an kæmi aft­ur en í kjöl­farið óku lög­reglu­menn um hverfið í leit að ein­hverj­um sem passaði við lýs­ing­una frá hús­ráðanda. Sá fannst ekki og ekki bár­ust frek­ari til­kynn­ing­ar til lög­reglu um þess­ar grun­sam­legu manna­ferðir.

Ljós­mynd/​Lög­regl­an

Könnuðust ekk­ert við rúðubrot

Hót­el­starfsmaður óskaði eft­ir aðstoð lög­reglu vegna rúðubrots í miðbæ Reykja­vík­ur. Fram kom í til­kynn­ingu að gerend­urn­ir væru enn á vett­vangi og mjög ölvaðir. Lög­regl­an fór á staðinn og gaf sig á tal við meinta gerend­ur. Ann­ar þeirra var í ann­ar­legu ástandi og kannaðist ekk­ert við rúðubrotið. Þegar lög­reglu­menn ætluðu að ræða við hinn aðilann byrjaði hann á því að hlaupa und­an lög­reglu sem gekk illa sök­um ástands og var hann fljót­lega hand­samaður. Sá kannaðist ekk­ert við það að hafa sparkað í rúðu og þver­tók fyr­ir það að hafa valdið rúðubrot­inu. Að viðræðum lokn­um voru báðir látn­ir laus­ir úr haldi lög­reglu.

Í sím­an­um og ekki í ör­ygg­is­belti

Til­kynnt var um um­ferðarslys í hverfi 220 í Hafnar­f­irði og var tekið fram að tveir væru lemstraðir en þó með meðvit­und. Lög­regl­an var send á vett­vang á for­gangi. Hún gaf sig á tal við ann­an öku­mann­inn sem viður­kenndi að hafa notað farsíma sinn við akst­ur og ekki verið í ör­ygg­is­belti. Öku­mann­in­um var til­kynnt að hann væri hand­tek­inn grunaður um akst­ur und­ir áhrif­um áv­ana- og fíkni­efna ásamt rétt­ar­stöðu sak­born­ings. Ökumaður­inn reynd­ist einnig vera öku­rétt­inda­laus. Ökumaður og farþegi í hinni bif­reiðinni voru báðir í ör­ygg­is­belt­um og fundu til eymsla eft­ir árekst­ur­inn.

Lög­reglu­menn urðu vitni að því þegar bif­reið var bakkað inn götu þar sem innakst­ur er bannaður í miðbæ Reykja­vík­ur. Ökumaður­inn yf­ir­gaf bif­reiðina vegna ágrein­ings við tvo aðra menn. Lög­regl­an gaf sig á tal við menn­ina og kom þá í ljós að ökumaður­inn reynd­ist vera einn af gerend­um í meintu rúðubroti. Hann var því hand­tek­inn, einnig grunaður um akst­ur und­ir áhrif­um áfeng­is og fíkni­efna.  

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert