Landsréttur staðfestir frávísun hryðjuverkamáls

Við þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi. Annar sakborningurinn í málinu, mætir …
Við þingfestingu málsins fyrir héraðsdómi. Annar sakborningurinn í málinu, mætir í dómsal ásamt verjanda sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lands­rétt­ur klofnaði í af­stöðu sinni þegar hann staðfesti úr­sk­urð héraðsdóms um að vísa frá hryðju­verka­mál­inu svo­kallaða. Er það gert í ljósi þess að mikl­ir ágall­ar eru á til­grein­ingu hinn­ar ætluðu refsi­verðu hátt­semi þeirra Sindra Snæs Birg­is­son­ar og Ísi­dóri Nathans­syni.

Þetta kem­ur fram í úr­sk­urði Lands­rétt­ar sem hef­ur ekki enn verið birt­ur á vefsíðu dóm­stóls­ins.

Einn dóm­ari af þrem­ur í Lands­rétti skilaði sér­at­kvæði og vildi að frá­vís­unar­úrsk­urður héraðsdóms yrði felld­ur úr gildi.

Í úr­sk­urði Héraðsdóms Reykja­vík­ur frá því 9. fe­brú­ar var tveim­ur liðum ákær­unn­ar gegn Sindra Snæ og Ísi­dóri vísað frá. Er í þeim Sindra gef­in að sök til­raun til hryðju­verks og Ísi­dóri gef­in að sök hlut­deild í til­raun­ar­broti með Sindra.

Snert­ir þessi frá­vís­un því ekki seinni liði ákær­unn­ar sem snú­ast að vopna­laga­broti og stór­felld­um vopna­laga­brot­um, ásamt fíkni­efna­broti.

Ákær­an þurfi að vera skýr

Í áliti meiri­hluta dóms­ins, sem skipaður var Lands­rétt­ar­dómur­un­um Kristni Hall­dórs­syni og Ragn­heiði Braga­dótt­ur, er vísað til laga um meðferð saka­mála þar sem til­tekið er að hver sú hátt­semi sem ákært er fyr­ir skuli vera svo glögg sem vera má í ákæru. Einnig að koma eigi fram hvar og hvenær brotið er talið framið. Seg­ir í úr­sk­urði meiri­hlut­ans að skýra beri þetta þannig að lýs­ing á hátt­sem­inni verði að vera svo góð og skýr að ákærði geti ráðið af henni hvaða refsi­verðu hátt­semi hann er sakaður um og hvaða refsilaga­ákvæði hann er tal­inn hafa brotið af sér.

Ákæru­efn­in

Vísað er til þess að í I. kafla ákær­unn­ar, sem bein­ist að Sindra Snæ, sé hon­um gefið að sök til­raun til hryðju­verka með því að hafa ákveðið að valda ótil­greind­um hópi fólks, á ótil­greind­um stað, bana eða stór­felldu lík­ams­tjóni eða stefna lífi þess í hættu með stór­felld­um eigna­spjöll­um og sýnt þann ásetn­ing ótví­rætt í orði á tíma­bil­inu maí til sept­em­ber í fyrra. Meðal ann­ars vísaði ákæru­valdið til orðfær­is og yf­ir­lýs­inga á dul­kóðaða sam­skipta­for­rit­inu Signal. Þá hafi hann einnig út­búið, fram­leitt og aflað sér skot­vopna, íhluta í skot­vopn og skot­færa. Þannig keypti hann m.a. árás­arriffla af gerðinni AK-47 og AR-15 sem hafi verið breytt í hálf­sjálf­virk­an. Einnig hafi hann orðið sér úti um efni og upp­lýs­ing­ar um sprengju- og dróna­smíði og reynt að verða sér uúti um lög­reglu­skil­ríki, lög­reglufatnað og lög­reglu­búnað með það fyr­ir aug­um að villa um fyr­ir fólk í tengsl­um við skotárás.

Þá er vísað til II. kafla ákær­unn­ar, sem er gegn Ísi­dóri, um að hann hafi í orði og verki átt hlut­deild að brot­um Sindra með því að hafa sent hon­um hvatn­ing­ar­orð, und­ir­róður og efni og upp­lýs­ing­ar um þekkta hryðju­verka­menn, hug­mynda­fræði og verknaðaraðferðir þeirra, sem og upp­lýs­ing­ar um sprengju- og dróna­smíði o.fl.

Ótil­greind­ur hóp­ur á ótil­greind­um stað í lagi...

Tekið er fram í úr­sk­urði Lands­rétt­ar að ekki sé talið að fram­setn­ing ákær­unn­ar, þegar komi að því gegn hverj­um eða hvenær meint árás ætti að eiga sér stað, valdi frá­vís­un.

...en skorti lýs­ingu á hvað hafi átt að gera

Hins veg­ar er tekið fram að ákær­an hafi ekki að geyma frek­ari lýs­ingu eða af­mörk­un á því orðfæri og yf­ir­lýs­ing­um Sindra og Ísi­dórs sem byggt sé á þegar Sindra er gert að hafa ætlað að valda ótil­greind­um hópi fólks bana eða stór­felldu lík­ams­tjóni eða stefna lífi þess í hættu eða með stór­felld­um eigna­spjöll­um.

Með þessu sé ekki orðið við ákvæði c- og d-liða 1. mgr. 152. gr. laga um meðferða saka­mála nr. 88/​2008 um að til­greina skuli þá hátt­semi sem ákærða er gef­in að sök með eins ná­kvæm­um hætti og mögu­legt er út frá þeim rann­sókn­ar­gögn­um sem liggja fyr­ir hverju sinni.

Því seg­ir í úr­sk­urðinum að ákæru­vald­inu hafi átt að vera unnt að til­greina mun skýr­ar og ná­kvæm­ar í ákæru hvaða orðfæri og yf­ir­lýs­ing­ar í sam­skipt­um tví­menn­ing­anna sýndu að Sindri Snær hefði tekið ákvörðun um hryðju­verk.

Ekki ráðið af ákæru hver refsi­verða hátt­sem­in sé

Leiðir þetta af sér að sama eigi við um ákæru­liðinn gegn Ísi­dóri og hlut­deild hans í meint­um brot­um Sindra Snæs. Seg­ir í dóm­in­um að enga frek­ari lýs­ingu eða út­list­un sé að finna í ákæru á ætluðum hvatn­ing­ar­orðum og und­ir­róðri Ísi­dórs.

„Sam­kvæmt fram­an­greindu eru slík­ir ágall­ar á til­grein­ingu hinn­ar ætluðu refsi­verðu hátt­semi varn­araðila sam­kvæmt köfl­um I og II í ákæru að þeir verða ekki tald­ir geta ráðið af ákær­unni einni hver sú refsi­verða hátt­semi er sem þeim er gef­in að sök í mál­inu. Eru þess­ir ágall­ar slík­ir að með réttu má telja tor­velt fyr­ir varn­araðila að halda uppi vörn­um í mál­inu,“ seg­ir í úr­sk­urði meiri­hlut­ans og er með því úr­sk­urður héraðsdóms um frá­vís­un þeirra kafla máls­ins sem snúa að hryðju­verk­um staðfest­ur.

Sér­at­kvæði Sím­on­ar

Í sér­at­kvæði Lands­rétt­ar­dóm­ar­ans Sím­on­ar Sig­valda­son­ar kem­ur fram að hann sé sam­mála meiri­hlut­an­um með að heim­ilt hafi verið að vísa til þess í ákær­unni að ætlað hryðju­verk hafi beinst að ótil­greind­um hópi á ótil­greind­um stað.

Hins veg­ar bæt­ir Sím­on við og seg­ir að horfa þurfi til und­ir­bún­ings­at­hafna sem miði að fram­kvæmd brots, jafn­vel þótt það nægi ekki til þess að brot geti full­fram­ist. Í gögn­um máls­ins liggi fyr­ir upp­lýs­ing­ar um at­hafn­ir sem hlut­lægt séð megi virða sem und­ir­bún­ing að framn­ingu hryðju­verks.

Sím­on gagn­rýn­ir fram­setn­ingu ákær­unn­ar varðandi meint­an ásetn­ing með orðfær­um og yf­ir­lýs­ing­um, en seg­ir það hins veg­ar ekki valda frá­vís­un. „Ég tel að rétt­ara hefði verið, og í betra sam­ræmi við tíðkan­lega ákæru­smíð, að fram hefði komið í ákæru í það minnsta eitt­hvert dæmi um þetta orðfæri eða þess­ar yf­ir­lýs­ing­ar. Ég tel hins veg­ar að ákær­an sé nægj­an­lega skýr um þessa hátt­semi varn­araðila,“ seg­ir í sér­at­kvæði hans.

Frétt­in hef­ur verið upp­færð.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert