Björgunarsveitir komu tveimur ferðamönnum til bjargar á gönguleið á milli Þakgils og íshellis í Kötlujökli í gær.
Að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, örmagnaðist annar ferðamannanna á leiðinni og gat ekki haldið áfram. Óskuðu þeir eftir aðstoð um hálffjögurleytið í gær og voru björgunarsveitir því kallaðar út.
Ferðamennirnir voru staddir á Vatnsrásarhöfði, rétt norður af Remundargilshöfði.
Það voru björgunarsveitir á fæti sem fundu þá um sexleytið og komu þeim til aðstoðar. Björgunarsveitarbíll flutti ferðamennina síðan í Þakgil en þar höfðu þeir skilið eftir bílinn sinn og gengið af stað.