Embætti ríkislögreglustjóra mun ekki tjá sig um hryðjuverkamálið á meðan það er á borði héraðssaksóknara að sögn Gunnars Harðar Garðarssonar, samskiptastjóra ríkislögreglustjóra.
Landsréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms um að vísa frá hryðjuverkamálinu svokallaða. Er það gert í ljósi þess að miklir ágallar eru á tilgreiningu hinnar ætluðu refsiverðu háttsemi þeirra Sindra Snæs Birgissonar og Ísidórs Nathanssonar.
„Það er eitthvað sem embættið og Sigríður munu ekkert kommenta á, það er mál sem er bara hjá héraðssaksóknara enda á hans forræði,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.
„Hún sjálf mun svo náttúrulega ekkert kommenta á þetta mál út af því að hún sagði sig frá því vegna beinna hagsmunatengsla út af föður sínum.“
Gunnar segir að embætti ríkislögreglustjóra muni heldur ekki tjá sig um hvort of brátt hafi verið farið af stað þegar hryðjuverkamálið var kynnt í fjölmiðlum.
„Það er eitthvað sem við munum ekkert tjá okkur um fyrr en það er komin lykt í málið, það væri óábyrgt að fara að tjá sig um einhverja þætti málsins, sama hverjir þeir eru, á meðan það er enn þá hjá öðru embætti sem ber ábyrgð á því.“
Gunnar segir ekki útilokað að embættið muni tjá sig þegar endanleg niðurstaða verður komin í málinu.