Ég er best gifta manneskjan

Svanlaug á og rekur OsteoStrong sem hjálpar fólki með stoðkerfisverki, …
Svanlaug á og rekur OsteoStrong sem hjálpar fólki með stoðkerfisverki, en hún sinnir einnig listagyðjunni með því að syngja og leika. Svanlaug missti son sinn árið 2015 en hefur fundið sátt í hjarta sínu. mbl.is/Ásdís

Í Urðarhvarfinu með útsýni til fjalla hitti blaðamaður Svanlaugu Jóhannsdóttur, fyrirtækjaeiganda, frumkvöðul og söngkonu. Orðið lífskúnstner kemur líka upp í hugann, en Svana, eins og hún er ávallt kölluð, hefur komið víða við. Hún hefur búið á Spáni, í London, í Ekvador og Argentínu, starfað við leikhús og lært söng en beinir nú kröftum sínum að fyrirtækinu Osteostrong sem hún á og rekur með eiginmanninum Erni Helgasyni. Listin er þó aldrei langt undan; Svana syngur og leikur í hjáverkum og er von á kvikmynd frá henni bráðlega.

Svana er komin í stellingar og hefur sannarlega frá mörgu að segja, enda hefur hún upplifað bæði sorgir og sigra í lífinu.

Tangósöngur í Argentínu

„Mig langaði að búa til einhvern stað þar sem hægt væri að nærast á menningu og sögu. Það er svo mikið niðurrif og ofbeldi í því sem við sjáum á skjánum og svo margar hræðilegar sögur. Mig langaði að segja sögur af fólki sem er að láta gott af sér leiða; sögur af fólki sem er hamingjusamt til æviloka,“ segir hún og segist hafa viljað segja sögur sem fylla fólk af jákvæðri orku og samdi því einn slíkan leikþátt.

Svana setur árlega upp sýningu í Gamla bíói og sækir …
Svana setur árlega upp sýningu í Gamla bíói og sækir innblástur í hátíðina frá Mexikó sem nefnist Dagur hinna dauðu. Þar fjallar hún um dauðann og missi, en það má bæði gráta og hlæja. Ljósmynd/Kolbrún Jónsdóttir

„Ég hafði þá kynnst manninum mínum og var ólétt, og þegar ég var komin níu mánuði á leið bauðst mér að fara á tangósöngnámskeið í tvo daga. Þarna bara fann ég sjálfa mig! Ég hafði verið meira í klassíkinni en þarna fann ég að ég átti heima. Ég söng eitt slíkt lag á tónleikum og fékk standandi uppklapp og mikla hvatningu. Barnið fæddist svo og ég fór í fæðingarorlof og við fluttum stuttu síðar til Argentínu og ég lærði þar allt um argentínskan tangó og Örn lærði smá spænsku.“

Blaðamaður stöðvar aðeins söguna.

Þú heillaðist svo mikið af tangótónlist að þú fluttir til Argentínu?

„Já, bara í eina önn, svona eins og allir gera með sex mánaða gamalt barn,“ segir hún og hlær.

„Það var draumur í dós. Ég fór þar í söngnám til manns sem hafði verið barnastjarna í Argentínu og hann gat sagt mér svo mikið af sögum. Þetta var algjört ævintýri,“ segir hún og segist einnig hafa sótt söngtíma hjá fleirum þar ytra.

Sonurinn jarðaður heima

Við heimkomuna hugðist Svana klára meistaranámið á Íslandi, en Örn fékk þá símtal sem breytti öllum þeirra plönum. Honum var boðið starf við að stjórna stærstu nautasláturhúsum Spánar. 

„Við pökkuðum saman búslóðinni og bjuggum næstu fimm árin í litlum bæ fyrir utan Madrid. Þarna var mikil einangrun en líka draumur þegar maður er með lítil börn, en við bjuggum í risavillu sem kostaði álíka og að leigja bílskúr hér heima,“ segir Svana en þegar þau fóru út áttu þau Ísgerði, fædda 2010. Starkaður fæddist svo á Spáni árið 2013, en þriðja barnið þeirra hjóna, Garpur, lést aðeins mánaðargamall árið 2015.

„Hann fæddist með hjartagalla,“ segir hún og segir hjartagallann hafa sést í sónar og voru þau búin undir að hann þyrfti að gangast undir aðgerð.

„Okkur var sagt að hann myndi kannski ekki vinna spretthlaup á Ólympíuleikunum en að hægt væri að gera við þetta,“ segir hún.

„Við vissum að hann yrði settur í hitakassa fram að aðgerð, en svo komst hann aldrei í aðgerðina. Þetta var mjög þungt, en við þurftum að taka ákvörðun að hætta ætti inngripum, en þetta var engin ákvörðun því það var í raun ekkert val. Það var fljótt ljóst að þetta myndi fara illa. Það er ótrúlegt hvað gerist þegar maður er settur í þessar aðstæður. Við höfðum einn dag til að ákveða okkur. Ég var búin að gráta niðurstöðurnar og vissi hvað við þurftum að gera,“ segir hún og segir þau hafa farið heim í sveitina þar sem eldri börnin voru í pössun hjá ömmu sinni og afa.

„Ég pakkaði niður og sendi börnin heim til Íslands með foreldrum mínum,“ segir hún og segist hafa verið skýr með það hvernig hún vildi hafa hlutina.

„Svo vaknar maður daginn eftir og líður eins og maður geti ekki staðið upp. Eins og það sé risablýhella yfir brjóstinu,“ segir Svana og segir litla drenginn svo hafa dáið í fangi hennar.

„Við fórum með hann heim og héldum jarðarför á Íslandi sem var mjög heilandi. Það var troðfull kirkja af fólki sem vildi vera með okkur í liði,“ segir hún og segir að í kjölfarið hafi þau farið aftur til Spánar í nokkra mánuði, en Örn sagði upp vinnunni og gátu þá hjónin fengið frið til að vera saman og syrgja. Þau pökkuðu svo saman og fluttu heim.

Hjónin Svanlaug og Örn Helgason eiga og reka saman fyrirtækið …
Hjónin Svanlaug og Örn Helgason eiga og reka saman fyrirtækið OsteoStrong. Hér eru þau með börnum sínum Ísgerði og Starkaði. Ljósmynd/Eydís Eyjólfsdóttir

„Við héldum vel utan um hvort annað og gerum enn. Ég segi alltaf að ég sé best gifta manneskjan sem ég þekki. Ég er ofboðslega þakklát fyrir hjónabandið mitt.“

Ítarlegt viðtal er við Svanlaugu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert