Fjögur tilboð bárust þegar Sjúkratryggingar óskuðu eftir tilboðum frá heilbrigðisfyrirtækjum á einkamarkaði sem framkvæma liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám.
Hafa stjórnvöld sett sér það markmið að gerðar verði sjö hundruð liðskiptaaðgerðir á þessu ári en átján hundruð manns eru á biðlista eftir slíkum aðgerðum.
Fjármagnið sem hefur verið tryggt í verkefnið er um það bil einn milljarður íslenskra króna.
Tilboð bárust frá fjórum fyrirtækjum, þremur íslenskum og einu sænsku en auglýsing Sjúkratrygginga gerði ráð fyrir því að allar aðgerðirnar yrðu framkvæmdar hér á landi.
Kostnaðaráætlun Sjúkratrygginga gerir ráð fyrir að greiddar verði 1.362.349 krónur fyrir liðskiptaaðgerð á mjöðm og 1.141.148 krónur fyrir liðskiptaaðgerð á hné. Öll tilboðin sem bárust Sjúkratryggingum voru undir kostnaðaráætlun vegna liðskiptaaðgerða á mjöðm en aðeins tvö tilboð voru undir áætluninni varðandi aðgerðir á hnjám.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 9. mars.